Reynt var að kveikja í Alþingishúsinu aðfaranótt fimmtudags. Mótmælendur kveiktu bál – eins og svo oft áður – fyrir framan húsið og tók einn þátttakandi sig til og skvetti bensíni á bálið nokkrum sinnum. Tóku nokkrir þátttakendur sig svo til og gerðu bensínrák frá bálinu að húsvegg þinghússins og upp á vegginn. Eldurinn dó út áður en illa fór og tóku lögreglumenn í taumana.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, horfði á árásina á Alþingi. „Ég varð eiginlega skelfingu lostinn því framhlið hússins var í eldi. Ég hélt fyrst að þetta væri hurðin og fannst þetta afar uggvænlegt.“
Helgi varð einnig vitni að því þegar ungur maður gekk berserksgang við húsið. „Hann var fullkomlega trylltur og viti sínu fjær. Hann tók upp hellustein og keyrði af miklu afli í rúðurnar á skrifstofu forseta Alþingis. Hann gerði þetta fjórum sinnum, tók steininn upp og kastaði í rúðurnar.“ Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, segir að farið verði gaumgæfilega yfir myndir og myndbönd af mótælum og þeir handsamaðir sem unnu skemmdaverk, og einnig þeir sem réðust að lögreglu með grjótkasti.
Ráðist var í ýmsar aðgerðir til að búa húsið undir ágang, m.a. voru hurðir og lásar treystir og rúður styrktar.