Greinilega snúið út úr ummælum

Hörður Torfason.
Hörður Torfason. mbl.is/Ómar

„Ég ætla bara að leyfa þessari umræðu að klárast. Það er greinilega verið að gera eitthvað úr hlutunum en ég hef ekkert fylgst með því. Ég er með á hreinu að menn misskilja eitthvað það sem ég hef sagt,“ sagði Hörður Torfason í gærkvöld, þegar hörð viðbrögð lesenda mbl.is við viðtali sem þar birtist við hann í gær, voru borin undir hann.

Í viðtalinu var Hörður inntur eftir viðbrögðum við veikindum Geirs H. Haarde forsætisráðherra. „Hvað er hann að draga veikindi sín fram í dagsljósið núna?“ var svar Harðar í frétt gærdagsins. „Það er til dálítið sem heitir einkalíf og svo er stjórnmálalíf. Það er tvennt ólíkt.“

Þessi ummæli urðu tilefni mikillar gagnrýni á Hörð á bloggsíðum og var fréttin orðin ein sú mest lesna á vef mbl.is í gærkvöldi. „Ég hef voða lítið um þetta að segja annað en að menn verða að skoða þetta, ég geri það sjálfur. Það er alveg á hreinu að þarna er verið að snúa út úr einhverju,“ sagði Hörður sem fannst „furðulegt“ að upptaka af viðtalinu hefði verið spiluð í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöld. „Stóri bróðir er alls staðar.“

Hann afþakkaði að bregðast við gagnrýninni síðar í gærkvöldi, eftir að hann hefði kynnt sér málin betur. ben@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka