Bönkunum mætti sennilega bjarga en það væri ríkinu óvinsælt og dýrt og óvíst hvort til þess gæfist tími, má lesa af glærum Willem H. Buiter og Anne Sibert, sem þau sýndu sérfræðingum frá Seðlabankanum, fjármálaráðuneytinu, almenna markaðinum og háskólasamfélaginu.
Skýrsluna unnu þau fyrir Landsbankann og hafa nú birt á vefsvæðinu www.cepr.org. Rýnum í skýrsluna og setjum í samhengi.
Menn sem sátu fundinn í júlí hafa hugleitt hvort orð Buiters í Háskólanum stangist á við niðurstöðu skýrslunnar? Vissulega stendur þar að bankakerfið sé ofvaxið og Seðlabankinn standi ekki undir því. Þar stendur að bankakerfi utan evrulands eða Bandaríkjanna standi ekki sterkt. Þau Buiter og Sibert margtóku fram í skýrslunni að raunhæfu kostirnir væru aðeins tveir. Að halda í krónuna og koma bönkunum úr landi og á evrusvæði eða halda bönkunum og ganga í Evrópusambandið og myntbandalag þess. Mörg ár gætu liðið þar til evran yrði gjaldmiðill hér á landi og ætlaði Ísland að standa undir stórvöxnu bankakerfinu fram að því gæti það safnað varaforða í sjóð (e. reserve fund). Í hann þyrfti að vera hægt að sækja án fyrirvara þegar styrkja þyrfti gengi krónunnar, hlutabréfamarkaðurinn hryndi eða áhlaup yrði á bankana.
Vandinn væri hins vegar tvenns konar. Uppbygging sjóðsins gæti tekið lengri tíma en landið hefði áður en bankakerfið hryndi. Einnig að þótt tími gæfist væri áhættan mikil, því binda þyrfti féð í þannig eignum að fljótt og örugglega mætti nálgast það. Þar með væri óljóst hvort landið hagnaðist af svo stóru bankakerfi þar til það gengi í ESB og myntbandalagið. Leiðin væri aðeins fær til styttri tíma og sem neyðarúrræði. Þau efuðust um að Ísland hefði nægan tíma til að byggja upp sjóðinn.
Það er því ekki orðum aukið þegar Buiter segir aðeins spurt hvenær bankakerfið hefði fallið. Það hefði að hans mati alltaf á endanum gert það án evrunnar sem bakhjarls.