Krefjast lagabreytinga í kjölfar niðurstöðu flengingarmáls

Umboðsmaður barna og forstjóri Barnaverndarstofu leyndu ekki vonbrigðum sínum þegar blaðamaður spurði út í nýfallinn dóm Hæstaréttar. Í honum sýknuðu dómarar réttarins karlmann sem rassskellti tvo syni, fjögurra og sex ára, þáverandi kærustu sinnar á beran rassinn.

Maðurinn var ákærður fyrir líkamsárás og til vara brot á barnaverndarlögum. Brugðist verður við dómnum og krafist lagabreytingar.

Í dómi Hæstaréttar segir að í barnaverndarlögum sé „ekki lagt fortakslaust bann við því að foreldri eða annar maður með samþykki þess beiti barn líkamlegum aðgerðum til að bregðast við óþægð, heldur er refsinæmi slíkrar háttsemi háð því að gerðir hans séu til þess fallnar að skaða barnið andlega eða líkamlega“.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir þetta vekja furðu. „Það er mjög skýrt í 99. gr. barnaverndarlaga – sem vitnað er til í dómnum – að refsingar á barni sem ætla má að hafi skaðleg áhrif á barn séu refsiverðar. Það liggur fyrir vitneskja, viðurkennd af fagfólki í þessum málaflokki, um að uppeldisaðferðir af þessum toga geta verið mjög skaðlegar barni. Þarna er verið að niðurlægja börnin, brjóta niður sjálfsvirðingu þeirra og sjálfsmynd.“

Athyglisvert er að í dómnum segir að maðurinn hafi borið olíu á rass drengjanna eftir hýðingarnar. Bragi segir með ólíkindum að ekki hafi verið litið til þess. „Sú athöfn að bera olíu á bakhlutann á börnunum getur einungis verið skýrð með því að það hafi verið vegna þeirra áverka sem maðurinn veitti þeim. Og þá er um að ræða klárt brot á hegningarlögum, og barnaverndarlögum. Ef hann hins vegar hefur borið olíuna á bakhluta þeirra af öðrum ástæðum en þeim að þeir báru áverka þykir mér nokkuð sýnt að þar sé um kynferðislega athöfn að ræða.“

Fram kom fyrir dómi að maðurinn hneigðist til flenginga í kynlífi og barði hann t.a.m. kærustu sína með beltisól á beran rassinn í kynlífsathöfnum þeirra. Hann bar þó við að sú hneigð tengdist ekki flengingum drengjanna.

 
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert