Sextándi mómælafundur Radda fólksins verður haldinn á Austurvelli í dag klukkan 15. Yfirskriftin er sem fyrr Breiðfylking gegn ástandinu og kröfurnar þær sömu og áður. Ræðumenn verða Magnús Björn Ólafsson, blaðamaður, Hildur Helga Sigurðardóttir, blaðamaður, Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, stjórnsýslufræðingur og Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur.
Á heimasíðu samtakanna segir m.a.: „Þrátt fyrir áfangasigur með yfirlýsingu um kosningar 9. maí nk. má ekki slaka á. Þjóðin getur ekki búið við vanhæfa ríkisstjórn deginum lengur. Sömu stjórnirnar sitja sem fastast í Seðlabanka og Fjármálaeftirliti og útrásarvíkingarnir leika lausum hala. Sameinumst um að reka endahnút á siðleysi og spillingu – hefjum vorhreingerningar í íslenska stjórnkerfinu.“