Mótmælum við Hilton Nordica hótelið við Suðurlandsbraut hefur nú verið hætt en nokkrir tugir manna komu saman við hótelið um klukkan 22 í kvöld og hófu hávær mótmæli gegn Seðlabankanum. Hafði borist út að árshátíð stofnunarinnar stæði yfir á hótelinu.
Lögregla var með talsverðan viðbúnað á svæðinu en eftir miðnættið hættu mótmælendur aðgerðum sínum. Þá hafði árshátíðargestum einnig fækkað mjög. Áður hafði öryggisstjóri hótelsins leyft einum úr hópi mótmælenda að fara inn í veislusalinn til að fullvissa sig um, að árshátíðinni væri að ljúka.