Ótakmarkað aðgengi varhugavert

Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur gagnrýnir ráðstefnu um Vatnajökulsþjóðgarð sem haldin var á Egilsstöðum á föstudaginn; segir hana í raun nær eingöngu hafa snúist um „tækifæri í ferðaþjónustu“, og hvernig nýta mætti þjóðgarðinn til að auka hana sem atvinnugrein, hafa af henni auknar tekjur, og efla byggð á jaðarsvæðum. „Inn í þetta var skotið erindum um ferðaþjónustu í Möðrudal og um Skálanessetur í Seyðisfirði, sem virtist nokkuð langsótt, þó það sé allrar athygli vert,“ segir hann í grein á vefsíðunni Austurglugganum.

„Naumast var minnst á náttúruvernd í þjóðgarðinum á þessum fundi, en litlum bæklingi var dreift, sem er stórum ábótavant, einkum hvað varðar Austursvæðið. Þar var enginn fyrirlesari frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands, sem þó eiga að heita starfandi. Meginmarkmið þjóðgarða (national parks) hefur þó ætíð verið að vernda náttúru viðkomandi svæða fyrir breytingum eða skemmdum af manna völdum og varðveita handa óbornum kynslóðum til að skoða og njóta, og þó ekki síður vegna náttúrunnar sjálfrar. Önnur helstu markmið þjóðgarða eru að gefa fræðimönnum kost á að rannsaka óspillt náttúrufar, að kynna það fyrir almenningi og veita honum aðgang að því með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar eru til að forðast skemmdir eða örtröð.“

 Helgi gagnrýnir að af hálfu ríkisstjórnar og sveitarstjórna hafi meginmarkmið Vatnajökulsþjóðgarðs frá upphafi verið að efla ferðaþjónustu í landinu og auka ferðamannastreymi til landsins, með öðrum orðum var friðlýsing jökulsins hugsuð sem auglýsing fyrir hann og aðliggjandi svæði. „Annað hefur verið látið liggja milli hluta, eins og umrædd ráðstefna sýndi svo ótvírætt. Vissulega hafa verndarsinnar líka stillt ferðamennsku upp sem valkosti við virkjanir í heita leiksins, en hóf er best í þvi efni sem öðru og ferðastóriðja er lítið betri en önnur stóriðja,“ segir Helgi.

www.austurglugginn.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert