Björgvin vill nýja bankastjórn í Seðlabankann og segir siðleysi hafa þrifist í viðskiptalífinu

Björgvin G. Sigurðsson
Björgvin G. Sigurðsson mbl.is / Ómar

„Það var ekkert eitt atvik sem fyllti mælinn. Þetta er búið að gerjast innra með mér lengi og ég hef oft velt þessu fyrir mér,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, fráfarandi viðskiptaráðherra, um afsögn sína. Björgvin telur eðlilegt að bankastjórn Seðlabankans víki. Hann segir að formaður Samfylkingarinnar hafi ekki sett þrýsting á sig að segja af sér.

„Ég varð sannfærður um það, eftir því sem á leið, að það yrði aldrei friður og sátt, og traust, fyrr en stjórnmálamenn og stjórnvöld sem í hlut ættu öxluðu ábyrgð,“ segir Björgvin. Hann segist ekki vita hver taki við embætti viðskiptaráðherra. Samkvæmt heimildum mbl.is er talið líklegt að Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sinni embættinu samhliða sínum störfum fram að kosningum í vor.

Það býður nýs viðskiptaráðherra að skipa nýja stjórn Fjármálaeftirlitsins en hún óskaði í dag lausnar að kröfu Björgvins.

Björgvin segist hafa tilkynnt Jónasi Fr. Jónssyni, forstjóra FME, um afsögn sína símleiðis. Hann segist sáttur við störf Jónasar og segir að hann hafi unnið frábært starf og segir hann „góðan mann.“ Þeir hafi jafnframt átt gott samstarf. „Þetta snýr ekki að Jónasi persónulega. Það hvarflaði aldrei að mér að fara fram á afsögn FME nema ég færi sjálfur,“ segir Björgvin. „Við berum þessa ábyrgð sameiginlega. Það þurfti hreinlega að höggva á hnútinn. Mér finnst ekkert óeðlilegt að stjórnmálamenn axli pólitíska ábyrgð.“

Aðspurður um stærstu mistökin segir hann að þau séu að hafa ekki sett það skilyrði í stjórnarsamstarfinu að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru. Hann segir jafnframt að fréttir undanfarinna daga um viðskipti í bönkunum rétt fyrir hrunið hafi komið sér á óvart og að ákveðið „siðleysi hafi þrifist í viðskiptalífinu.“ Nú sé tækifæri til endurreisnar og endurskoðunar á regluverkinu.

Björgvin vill sjá breytingar í Seðlabankanum. „Mér finnst að stjórnvöld þurfi að fá svigrúm til að skipa nýtt fólk í Seðlabankann. Ég tel æskilegt að það komi nýir menn þar inn, það er ekki hægt að skilja á milli ábyrgðanna,“ segir Björgvin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert