Ásaka hvert annað um hroka

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins segir að krafa Samfylkingarinnar um að Jóhanna Sigurðardóttir fengi forsætisráðherrastólinn hafi aldrei komið til greina en hennar nafn hafi fyrst verið nefnt í morgun. Þessi krafa varð banabiti ríkisstjórnarinnar sem hefur lengi riðað til falls.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar hefur nú gert öðrum flokkum samskonar tilboð um samstarf í ríkisstjórn sem Jóhanna Sigurðardóttir myndi leiða fram að kosningum. Ingibjörg Sólrún segist vonast til þess að hægt sé að mynda nýja ríkisstjórn í dag. 

Þjóðstjórn er besti möguleikinn í stöðunni að mati Geirs H, Haarde formanns Sjálfstæðisflokksins en kemur þó vart til greina nema Sjálfstæðisflokkurinn fái Forsætisráðuneytið. Utanþingsstjórn er að hans mati versti kosturinn í stöðunni. Fátt kemur nú í veg fyrir minnihlutastjórn VG og Samfylkingar með stuðningi Framsóknarflokksins ef Sjálfstæðismenn breyta ekki afstöðu sinni.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir Sjálfstæðisflokkinn bera mikla ábyrgð á efnahagshruninu. Hann sé fyrst og fremst valdakerfi og skorti auðmýkt. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segist ekki vísa frá sér ábyrgð en Samfylkingin geti heldur ekki vikist undan sínum hluta ábyrgðarinnar eftir veru sína í ríkisstjórn.

Sjá Mbl sjónvarp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert