Ekki er langt síðan Ísland hafði margt til þess að vera stolt af. Góðærið var slíkt að einhverjir héldu að bjartar sumarnætur myndu vara að eilífu. Viðskiptalífið blómstraði og Reykjavík var draumastaður ríkra ferðamanna, mataráhugamanna og þeirra sem unna menningu. Á þessum orðum hefst stór úttekt á Íslandi í breska dagblaðinu Independent í dag.
Fjallað er um í úttektinni um fegurð landsins, hátt menntunarstig þjóðarinnar sem vann hörðum höndum og hversu hátt Íslandi skoraði á mælikvörðum lífsgæða í alþjóðlegum samanburði.
Í október hafi hins vegar þrír stærstu bankar landsins verið þjóðnýttir og gjaldþrota. Á einni nóttu hafi þeir Íslendingar, og þeir hafi verið margir, sem höfðu fjárfest í lúxusbifreiðum og heimilum með erlendum lánum, upplifað það að þeir gætu ekki lengur greitt fyrir munaðinn. Gengi krónunnar féll og margir þeirra sem nálguðust eftirlaunaaldur stóðu frammi fyrir því að lífeyrissparnaðurinn þeirra hvarf. En þeir Íslendingar sem fóru varlega með sparifé sitt urðu einnig fyrir barðinu á kreppunni. Matar- og eldsneytiskostnaður rauk upp úr öllu valdi og vextir eru nú tæplega 20%.
Hegðuðum okkur eins og börn
„Tilfinningin er sú að við séum ófær um að sjá um okkar mál," segir Hallgrímur Helgason, rithöfundur í samtali við Independent. „Við sáum um okkur sjálf í nokkur ár og við gengum of langt, of hratt, á of stuttum tíma. Við hegðuðum okkur eins og börn og það fyrsta sem við gerðum þegar hlutabréfamarkaður hófst hér fyrir tíu árum var að fara til Lundúna og kaupa leikfanga- og sælgætisbúðir. Nú erum við gjaldþrota og það verður enginn peningur til hér á næstu árum og við sitjum uppi með meiri skuldir heldur en við getum nokkurn tíma endurgreitt," bætir Hallgrímur við.
„Við erum eins og börn sem skilin eru eftir heima yfir helgi og við rústuðum heimilinu á meðan."
Í greininni er fjallað um mótmælin í síðustu viku og að Íslendingar hafi ekki upplifað mótmæli af þessu tagi frá því í mars 1949. Í greininni er rætt við Hörð Torfason, tónlistarmann og forsvarsmann Radda fólksins, sem lýsir samtali sem hann hafi átt við mann sem hafði misst allt sitt og fjölskylda hans einnig. „Hann bað mig um að aðstoða við að smíða gálga fyrir utan Alþingi," segir Hörður í samtali við Independent. „Ég spurði hann hvort þeir ættu að vera byggðir í táknrænum tilgangi. Nei var svarið. Fjölskyldumeðlimur minn vill hengja sig á almannafæri. Ég sagði honum að ég gæti ekki aðstoðað hann á þennan hátt," sagði Hörður. „En tveimur dögum síðar framdi hann sjálfsvíg."
Úttekt Independent í heild