Ferðum strætó fækkað vegna erfiðleika í rekstri

Þann 1. febrúar næstkomandi verða breytingar á aksturstíðni á flestum leiðum Strætó bs. Miðast breytingarnar að því að draga úr ferðatíðni um miðjan dag, á kvöldin og um helgar. Fargjöld munu hinsvegar ekki hækka.  Stætó segir, að þetta séu viðbrögð við afar erfiðum rekstraraðstæðum í kjölfar gengisfalls krónunnar og kostnaðarhækkana í kjölfar þess.

„Breytingarnar eru gerðar með hliðsjón af ítarlegum rannsóknum Strætó bs. á farþegafjölda og nýtingu strætóleiða. Þannig er dregið mest úr þjónustu á þeim tímum þegar farþegar eru fáir, en minna þegar nýting er meiri. Á leiðum 1 og 6, sem flytja flesta farþega dag hvern, verða t.a.m. engar breytingar að því undanskildu að akstur hefst tveimur tímum síðar en áður á sunnudagsmorgnum."

Ferðum fækkað á kvöldin og um helgar

Helstu breytingarnar eru að allar helstu leiðir, að leiðum 1 og 6 undanskildum, munu aka á hálftíma fresti utan annatíma virka daga og leiðir 21, 22, 33, 34, 35 og 36 á klukkutíma fresti. Jafnframt munu leiðir 2, 4, 5, 11, 12, 13, 14, 15, 18, 19, 24 og 28 aka á klukkutíma fresti á kvöldin og um helgar. Þjónustutími Strætó mun ekki styttast að öðru leyti en því að akstur mun hefjast tveimur tímum síðar en verið hefur á öllum leiðum á sunnudögum og helgidögum. Vagnar munu áfram aka fram undir miðnætti.

 Að auki verða sértækar breytingar á nokkrum leiðum. Leið 4 ekur einungis milli Hamraborgar og Breiðholts utan dagtíma, leið 17 mun einungis aka á dagtíma á virkum dögum og milli kl. 12:00 og 19:00 á laugardögum, leið 23 (Álftanes) mun eingöngu aka á annatímum og leiðir 31 og 32 munu eingöngu aka á klukkutíma fresti. Nýjar tímatöflur og nánari upplýsingar um breytingarnar hafa verið birtar á strætó.is og eru farþegar hvattir til að kynna sér þær, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert