Það sætir furðu að stjórnarmenn í Glitni skuli ekki hafa lagt fram starfslokasamning Bjarna Ármannssonar meðal gagna málsins þegar Vilhjálmur Bjarnason, hluthafi í bankanum, höfðaði mál gegn þeim vegna þeirrar ákvörðunar að kaupa hlutabréf af Bjarna á yfirverði.
Er það samdóma álit nokkurra lögmanna sem sérhæfa sig í félagarétti sem Morgunblaðið ræddi við um dómsniðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, en stjórnarmennirnir fyrrverandi voru dæmdir til þess að greiða Vilhjálmi Bjarnasyni 1,9 milljónir króna í skaðabætur.
„Mínir umbjóðendur höfðu ekki forræði á því að gera það [afhenda samninginn] vegna þess að samningsaðilar eru Glitnir og Bjarni og samningurinn er trúnaðarmál. Þeir sem höfðu forræði á því að afhenda samninginn voru annars vegar bankinn sjálfur og hins vegar Bjarni,“ segir Ólafur Eiríksson, lögmaður stjórnarmannanna fyrrverandi. Hann segir að Bjarni hafi ekki verið sérstaklega beðinn um að afhenda samninginn. Hann segir að ekki hafi verið talin þörf á því en tekur fram að samningurinn verði lagður fram fyrir Hæstarétti.
Sérfræðingur í félagarétti, sem Morgunblaðið ræddi við, segir að dómsniðurstaðan hafi komið sér á óvart. Þar sem Vilhjálmur vilji sömu meðferð og Bjarni fékk þá sé sú krafa undaleg í ljósi þess að viðskiptin hafi verið ólögmæt. Stjórnin hafi hvorki gætt hagsmuna bankans né hluthafa. Það sé í raun verið að dæma bætur sem séu einnig ólögmætar. Hann tekur hins vegar fram að sú málsvörn að vísa til samþykkta hluthafafundar sé haldlítil ef ákvörðunin um kaupin hefur bersýnilega brotið gegn ákvæðum hlutafélagalaga.
Ef Hæstiréttur staðfestir dóminn fær Vilhjálmur sína kröfu greidda og ræðst það síðan af skilmálum vátryggingar sem Glitnir tók vegna starfa stjórnarinnar hvort tryggingafélagið eigi endurkröfurétt á stjórnina. Það verður að teljast ólíklegt í ljósi þess að oftast er gerð krafa um stórkostlegt gáleysi, sem ekki er til að dreifa í þessu tilviki.
Guðni Á. Haraldsson, lögmaður Vilhjálms, segist vongóður um að Hæstiréttur staðfesti niðurstöðuna. „Það er mjög mikilvægt fyrir aðra hluthafa sem hyggjast sækja rétt sinn að leita sér aðstoðar lögmanns strax því ella gætu þeir átt á hættu að tapa réttinum sökum tómlætis,“ segir Guðni.