Reiknað er með að þónokkur hópur erlendra nemenda komi til náms í flugtengdum greinum hjá samgönguskóla Keilis á Keflavíkurflugvelli á þessu ári. Meðal annars er unnið að samningum við Kínverja.
Þegar Keilir kynnti flugakademíu sína í flugskýli 780 á Keflavíkurflugvelli, meðal annars nýjar kennsluvélar, kom fram hjá Hjálmari Árnasyni, framkvæmdastjóra samgönguskóla Keilis, að unnið væri að samningum við Kínverja um samstarf. Hjálmar sagði í samtali við mbl.is að vegna mikils hagvaxtar í Kína hafi ferðalög aukist mjög. Varla hafist undan að mennta starfsfólk í flugþjónustu. „Þarlendir aðilar höfðu samband við Keili um að hingað kæmu nemendur í flugtengdum greinum, í háskólaþorpi Keilis. Að þessu höfum við stefnt frá upphafi og erum bjartsýn á að þessi draumur geti orðið að veruleika,“ sagði Hjálmar. Hann sagði að ef af þessu yrði, gæti komið stór hópur til náms í ýmsum greinum flugsins.
Gat Hjálmar þess að flugnám væri nú vel samkeppnisfært í verði hér á landi, miðað við nágrannalöndin, og eigi hann von á töluverðum hópi erlendra nemenda þegar á þessu ári.
Í Flugakademíunni er ætlunin að hafa undir einum hatti allt flugtengt nám. Nú þegar er verið að kenna flugfreyjum og einkaflugmönnum. Annar hópurinn í einkaflugmannsnáminu hefur hafið sitt nám. Jafnframt er að hefjast kennsla fyrir flugumferðarstjóra og bóklegt nám fyrir atvinnuflugmenn. Keilir vill innleiða nýja kennsluhætti í flugkennslu á Íslandi. Hjálmar sagði á kynningunni að Keilir væri þegar búinn að panta fimm kennsluvélar af Diamond-gerð og væri tvær þær fyrstu nú komnar. Jafnframt væri á borðinu samningur um notkun Cirrus-vélar til flugkennslunnar.