„Verkstjórnin hefur einfaldlega ekki verið í lagi,“ sagði Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Lúðvík hafnar því að Samfylkingin sé í uppnámi líkt og Geir H. Haarde fullyrti í dag að væri aðalástæða þess að upp úr samstarfi flokkanna slitnaði.
Geir sagði að Samfylkingin væri í tætlum sem stjórnmálaflokkur. Þessu hafnaði Lúðvík Bergvinsson.
„Og mér þykir miður að Geir skuli tala svona á þessum tímamótum.“
Lúðvík sagði kröfur Samfylkingarinnar hafa verið skýrar allt frá því bankakerfið hrundi. Ákveðinnar hreinsunar hefði verið og væri enn þörf í kerfinu og grípa þyrfti til að gerða í þágu heimilanna og fyrirtækjanna.
„En okkur hefur ekki tekist að fá Sjálfstæðisflokkinn til samstarfs, við höfum talað fyrir daufum eyrum,“ sagði Lúðvík Bergvinsson.