„Tilraunir Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra til að slá ryki í augu fólks með yfirlýsingum eins og þeirri að tilteknir þingmenn VG hafi beinlínis veist að lögreglunni, eru veruleikafirrt og eiga sér enga stoð í sannleikanum Það er ábyrgðarhluti að yfirmaður dómsmála í landinu skuli viðhafa slíkar dylgjur og blekkingar í pólitískum tilgangi,“ segir í yfirlýsingu þingflokks VG.
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra skrifaði á vefsíðu sína á laugardag að þingmenn VG hefðu sýnt mikinn tvískinnung í afstöðu sinni til lögreglunnar. Álfheiður Ingadóttir og Atli Gíslason hefðu beinlínis veist að lögreglunni vegna aðgerða hennar. Þá hafi Álfheiður hreinlega orðið sér til skammar með framgöngu sinni í þinghúsinu þriðjudaginn 19. janúar til stuðnings þeim, sem réðust að húsinu, og óvild í garð lögreglu.
Af þessu tilefni sendi þingflokkur VG frá sér yfirlýsingu þar sem segir að ásakanir Björns Bjarnasonar séu órökstuddar.
„Þingflokkur Vinstri grænna fordæmir harðlega hvers kyns ofbeldi, sama hver í hlut á. Ofbeldi í garð lögreglunnar er aldrei og undir engum kringumstæðum réttlætanlegt. Friðsamleg mótmæli og andóf eru mikilvægir hlekkir virkrar þátttöku í lýðræðisríki og það er ekki að undra að fólk rísi nú upp gegn því órétti og ranglæti sem hefur fengið að viðgangast í samfélaginu. Slík mótmæli beinast ekki gegn góðri löggæslu heldur gegn vanhæfum stjórnvöldum og þeim sem ábyrgðina bera,“ segir í yfirlýsingu VG.
Þá segir að þingflokkurinn telji lögreglu almennt hafa sýnt aðdáunarverða þolinmæði og umburðarlyndi sem komið hafi í veg fyrir frekara ofbeldi. Fyrir það eigi lögreglan hrós skilið og sama gildi um mótmælendur sem af hugrekki slógu skjaldborg um lögreglumenn til að verja þá gegn árásum.