Það ræðst væntanlega í dag hvort ríkisstjórnin heldur velli. Forystumenn flokkanna hittust í gær á heimili forsætisráðherra til að fara yfir stjórnarsamstarfið. Fátt stendur út af borðinu í viðræðum flokkanna, nema að Samfylkingin vill taka að sér „verkstjórnina“, en Sjálfstæðisflokkurinn er ekki reiðubúinn að gefa eftir forsætisráðuneytið.
Samkvæmt heimildum úr Samfylkingunni var lagður fram listi yfir verkefni sem þyrfti að ráðast í og veltur framtíð samstarfsins á því að orðið verði við þeim kröfum. Er það rökstutt með því að eitthvað þurfi að gerast fram að kosningum, annað en að skipt yrði um formann í Sjálfstæðisflokknum.
En heyra má á sjálfstæðismönnum að ekkert nýtt sé á þeim lista sem Samfylkingin hafi lagt fram og jafnframt að þar sé ekkert þess eðlis að flokkarnir geti ekki náð samkomulagi um það.
Sjálfstæðisflokkurinn er reiðubúinn að gera breytingar á yfirstjórn Seðlabankans og stokka upp ráðherraskipan, að því er heimildir herma, en í því felst að Samfylkingin fengi fjármálaráðuneytið og Árni Mathiesen viki frá.
Raunar var gert samkomulag þar að lútandi á milli stjórnarflokkanna fyrir síðustu jól, en frestað var að hrinda samkomulaginu í framkvæmd að beiðni Samfylkingarinnar, þar til Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði lokið læknismeðferð.
Þá setur ekki strik í reikninginn í stjórnarsamstarfinu sú krafa Samfylkingar að unnið verði að samkomulagi um breytingar á stjórnarskrá, þannig að sækja megi um aðild að Evrópusambandinu í kjölfar þingkosninga í vor.
Ráðherra Samfylkingarinnar segir að samstarfið muni „springa“ ef Davíð Oddsson seðlabankastjóri verði ekki látinn fara, en það segja sjálfstæðismenn aðeins „skálkaskjól“ og að stóll forsætisráðherra sé það eina sem skilji á milli.