„Líkamlegar refsingar eru alls ekki leið til að ná árangri í uppeldi“

Sverrir Vilhelmsson

Barna­heill, Save the Children, á Íslandi harma sýknu­dóm Hæsta­rétt­ar  frá 22. janú­ar sl. yfir karl­manni sem m.a. var ákærður fyr­ir brot gegn 1. og 3. gr. barna­vernd­ar­laga, en hann hafði ít­rekað beitt tvo drengi, fjög­urra og sex ára, lík­am­leg­um refs­ing­um með því að flengja þá. Þetta kem­ur fram í frétta­til­kynn­ingu frá sam­tök­un­um.

Hæstirétt­ur staðfesti dóm sem féll í Héraðsdómi Norður­lands eystra í ág­úst sl., en Barna­heill sendu þá álykt­un til Dóms­málaráðherra, Dóm­stólaráðs, Alþing­is­manna og fjöl­miðla þar sem dóm­ur Héraðsdóms var harmaður.

Í dómi Hæsta­rétt­ar seg­ir m.a.  

"Með 1. mgr. 99. gr. barna­vernd­ar­laga nr. 80/​2002 er ekki lagt for­takslaust bann við því að for­eldri eða ann­ar maður með samþykki þess beiti barn lík­am­leg­um aðgerðum til að bregðast við óþægð, held­ur er refs­inæmi slíkr­ar hátt­semi háð því að gerðir hans séu til þess falln­ar að skaða barnið and­lega eða lík­am­lega. Ekki hafa verið færðar sönn­ur fyr­ir að hátt­semi ákærða, sem 1. liður ákæru tek­ur til, hafi farið út fyr­ir þau mörk, sem þetta ákvæði fel­ur í sér."

„Barna­heill vilja af þessu til­efni ít­reka að ís­lensk stjórn­völd hafa staðfest Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna þar sem kveðið er skýrt á að börn skuli njóta vernd­ar gegn öllu of­beldi, lík­am­legu, and­legu og kyn­ferðis­legu (19. grein). Enn­frem­ur er kveðið á um að börn megi ekki beita ómannúðlegri meðferð eða niður­lægj­andi meðferð eða refs­ingu (39. grein). Dóm­ur­inn sem hér um ræðir er því tví­mæla­laust brot á Barna­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna,“ seg­ir í frétta­til­kynn­ingu frá Barna­heill­um.

Ekki leið til ár­ang­urs

„Barna­heill vilja einnig ít­reka að fjöl­marg­ar rann­sókn­ir sýna að lík­am­leg­ar refs­ing­ar eru alls ekki leið til að ná ár­angri í upp­eldi og hafa skaðleg áhrif á börn. Sam­tök­in harma að dóm­ur sé byggður á þeim for­send­um árið 2009 að ekki hafi verið hægt að færa sönn­ur á að þær lík­am­legu refs­ing­ar sem um ræðir hafi skaðað börn­in. Barna­heill, Save the Children, á Íslandi ótt­ast for­dæm­is­gildi dóms Hæsta­rétt­ar varðandi þau skila­boð að í lagi sé að beita börn lík­am­leg­um refs­ing­um "til að bregðast við óþægð" .  Dóm­ur­inn geng­ur þannig þvert á vel­ferð barna, mann­rétt­indi þeirra og alþjóðlega sátt­mála sem Ísland hef­ur staðfest.

Með því að staðfesta Barna­sátt­mál­ann hafa ís­lensk stjórn­völd skuld­bundið sig til að aðlaga ís­lensk lög að sátt­mál­an­um. Í mörg­um Evr­ópu­lönd­um eru lík­am­leg­ar refs­ing­ar í hvað mynd sem er bannaðar með lög­um vegna þess að aðrar leiðir eru ein­fald­lega tald­ar væn­legri til ár­ang­urs í upp­eldi.  Barna­heill vona að Ísland bæt­ist fljót­lega í þann hóp.“

Fagna nýju frum­varpi til laga

Í til­kynn­ingu Barna­heilla seg­ir einnig: „Fyr­ir Alþingi ligg­ur nú frum­varp til laga um breyt­ingu á barna­vernd­ar­lög­um nr. 80/​202, með síðari breyt­ing­um og barna­lög­um, nr. 76/​2003, með síðari breyt­ing­um, þar sem tek­in eru öll tví­mæli af því að lík­am­leg­ar refs­ing­ar séu ekki leið til upp­eld­is barna, held­ur séu þær of­beldi, séu auðmýkj­andi fyr­ir barnið og valdi því skaða. Barna­heill fagna mjög frum­varp­inu og vona að það verði að lög­um sem allra fyrst. Sam­tök­in hvetja jafn­framt ís­lenskt dóms­kerfi til að standa vörð um rétt­indi barna og nýta til fulln­ustu þau laga­ákvæði sem kveða á um vernd barna gegn lík­am­leg­um refs­ing­um og öðru of­beldi.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert