„Líkamlegar refsingar eru alls ekki leið til að ná árangri í uppeldi“

Sverrir Vilhelmsson

Barnaheill, Save the Children, á Íslandi harma sýknudóm Hæstaréttar  frá 22. janúar sl. yfir karlmanni sem m.a. var ákærður fyrir brot gegn 1. og 3. gr. barnaverndarlaga, en hann hafði ítrekað beitt tvo drengi, fjögurra og sex ára, líkamlegum refsingum með því að flengja þá. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum.

Hæstiréttur staðfesti dóm sem féll í Héraðsdómi Norðurlands eystra í ágúst sl., en Barnaheill sendu þá ályktun til Dómsmálaráðherra, Dómstólaráðs, Alþingismanna og fjölmiðla þar sem dómur Héraðsdóms var harmaður.

Í dómi Hæstaréttar segir m.a.  

"Með 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er ekki lagt fortakslaust bann við því að foreldri eða annar maður með samþykki þess beiti barn líkamlegum aðgerðum til að bregðast við óþægð, heldur er refsinæmi slíkrar háttsemi háð því að gerðir hans séu til þess fallnar að skaða barnið andlega eða líkamlega. Ekki hafa verið færðar sönnur fyrir að háttsemi ákærða, sem 1. liður ákæru tekur til, hafi farið út fyrir þau mörk, sem þetta ákvæði felur í sér."

„Barnaheill vilja af þessu tilefni ítreka að íslensk stjórnvöld hafa staðfest Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem kveðið er skýrt á að börn skuli njóta verndar gegn öllu ofbeldi, líkamlegu, andlegu og kynferðislegu (19. grein). Ennfremur er kveðið á um að börn megi ekki beita ómannúðlegri meðferð eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu (39. grein). Dómurinn sem hér um ræðir er því tvímælalaust brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir í fréttatilkynningu frá Barnaheillum.

Ekki leið til árangurs

„Barnaheill vilja einnig ítreka að fjölmargar rannsóknir sýna að líkamlegar refsingar eru alls ekki leið til að ná árangri í uppeldi og hafa skaðleg áhrif á börn. Samtökin harma að dómur sé byggður á þeim forsendum árið 2009 að ekki hafi verið hægt að færa sönnur á að þær líkamlegu refsingar sem um ræðir hafi skaðað börnin. Barnaheill, Save the Children, á Íslandi óttast fordæmisgildi dóms Hæstaréttar varðandi þau skilaboð að í lagi sé að beita börn líkamlegum refsingum "til að bregðast við óþægð" .  Dómurinn gengur þannig þvert á velferð barna, mannréttindi þeirra og alþjóðlega sáttmála sem Ísland hefur staðfest.

Með því að staðfesta Barnasáttmálann hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til að aðlaga íslensk lög að sáttmálanum. Í mörgum Evrópulöndum eru líkamlegar refsingar í hvað mynd sem er bannaðar með lögum vegna þess að aðrar leiðir eru einfaldlega taldar vænlegri til árangurs í uppeldi.  Barnaheill vona að Ísland bætist fljótlega í þann hóp.“

Fagna nýju frumvarpi til laga

Í tilkynningu Barnaheilla segir einnig: „Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum nr. 80/202, með síðari breytingum og barnalögum, nr. 76/2003, með síðari breytingum, þar sem tekin eru öll tvímæli af því að líkamlegar refsingar séu ekki leið til uppeldis barna, heldur séu þær ofbeldi, séu auðmýkjandi fyrir barnið og valdi því skaða. Barnaheill fagna mjög frumvarpinu og vona að það verði að lögum sem allra fyrst. Samtökin hvetja jafnframt íslenskt dómskerfi til að standa vörð um réttindi barna og nýta til fullnustu þau lagaákvæði sem kveða á um vernd barna gegn líkamlegum refsingum og öðru ofbeldi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka