Geir H Haarde forsætisráðherra segir að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfsæðisflokks og Samfylkingar hafi ekki strandað á málefnaágreiningi. Hann er spurður út í þau ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tafið mál.
„Það er fyrst og fremst eitt mál, sem Samfylkingin talar um í því sambandi, því önnur atriði höfum við afgreitt jöfnum höndum og staðið sameiginlega að því. Það sem Samfylkingin á við er Seðlabankinn og yfirstjórn hans. Ég bendi á að það var fyrst í gær [fyrradag], sem Samfylkingin eða viðskiptaráðherra ákvað að gera breytingar á Fjármálaeftirlitinu, en þó ekki fyrr en frá og með 1. mars, hvað varðar forstjórann. Við höfum rætt við Samfylkinguna um að við vildum gera lagabreytingar sem lúta að Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum, og kanna til hlítar hvort rétt sé að sameina þessar stofnanir á nýjan leik. Við fengum erlendan sérfræðing til að fara yfir skipulagið á Fjármálaeftirlitinu og höfum jafnframt leitað ráða hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um þau mál. Ég er viss um að hægt hefði verið að leiða þetta mál til lykta í febrúarmánuði fyrir 1. mars, sem er dagsetningin sem valin var gagnvart starfslokum forstjóra Fjármálaeftirlitsins.“
Nánar er rætt við Geir í Morgunblaðinu í dag.