Gunnar Páll Pálsson, formaður VR, skrifaði öllum trúnaðarmönnum félagsins í dag þar sem hann segist hafa axlað ábyrgð og biður um stuðning til áframhaldandi setu í formannsstólnum. Fundur trúnaðarráðs og trúnaðarmanna VR funda í kvöld þar sem kosið verður um hvern þeir styðja til formennsku.
Gunnar Páll segir í bréfinu að sumt af umfjöllun í fjölmiðlum undanfarið um störf sín fyrir Kaupþing sé „hreinlega ósatt og annað slitið úr samhengi.“ Hann segir: „Þær ákvarðanir sem ég stóð að í september sl. í stjórn Kaupþings voru teknar miðað við fyrirliggjandi gögn um að bankinn væri fjármagnaður næsta árið. Það hvarflaði aldrei að mér, frekar en öðrum, að bankakerfið myndi hrynja. Ég starfaði að fullum heilindum út frá þeim upplýsingum sem fyrir lágu. Það er auðvelt að gagnrýna eftirá ýmsar ákvarðanir sem teknar voru fyrir hrunið.“