„Þetta eru óvenjulegar aðstæður,“ segir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytsins, en óljóst er hverjir verða viðstaddir málstofu um öryggishorfur á norðurslóðum, sem íslensk stjórnvöld og Atlantshafsbandalagið (NATO) standa fyrir á fimmtudag, fyrir Íslands hönd. Allt mun hins vegar fara fram skv. áætlun.
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir áttu að vera viðstödd málstofuna og átti Geir að flytja ávarp, en ljóst er að þær miklu pólitísku breytingar sem hafa átt sér stað undanfarna daga hafa sett strik í reikningin. „Þetta er eitthvað sem stjórnvöld eru sér fullkomlega meðvituð um,“ segir Urður. Von er á um 200 til 300 manns vegna ráðstefnunnar, sem fer fram á Nordica.
„Miðað við hvernig ástandið hefur verið þá er ekki hægt að útiloka það,“ segir Urður þegar hún er spurð út í möguleg mótmæli. Ljóst er að mótmæli eru fyrirhuguð, a.m.k. miðað við það sem fram kemur Facebook síðu þar sem yfirskriftin er „Ísland úr Nató og Nató af Íslandi - slítum Nató ráðstefnunni“.
Aðalræðumaður málstofunnar er Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdarstjóri
NATO. Meðal annarra þátttakenda eru Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra
Noregs og Søren Gade, varnarmálaráðherra Danmerkur.
Yfirskrift málstofunnar er „Security Prospects in the High North“. Skv. upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er markmið hennar að varpa ljósi á „þær breytingar eru að eiga sér stað á norðurslóðum með tilliti til hefðbundins öryggis og að ræða hvernig koma megi í veg fyrir að norðurslóðir verði vettvangur spennu, deilna og mögulegrar hernaðarvæðingar. Sérstaklega er litið til núverandi öryggisáskorana, framtíðarhorfa í öryggismálum og með hvaða hætti byggja megi upp traust á svæðinu og tryggja aukið samstarf NATO-ríkjanna við þau ríki sem standa utan bandalagsins, svo sem Rússland, Svíþjóð og Finnland.“