Orkuveitunni dæmdar jarðir

mbl.is

Héraðsdómur Suðurlands staðfesti í dag fullan eignarrétt Orkuveitu Reykjavíkur að landsvæðum sem Orkuveitan hefur keypt úr níu jörðum í sveitarfélaginu Ölfusi. Héraðsdómur felldi þar með úr gildi að hluta úrskurði óbyggðanefndar frá 31. maí 2006 sem hafði úrskurðað landsvæðin þjóðlendur.

Orkuveita Reykjavíkur stefndi íslenska ríkinu, sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi og 16 landeigendum til réttargæslu.

Orkuveitan krafðist þess að felldir yrðu úr gildi að hluta úrskurðir óbyggðanefndar frá 31. maí 2006. Í dómi héraðsdóms Suðurlands er rakið að íslenska ríkið afsalaði hluta þess landsvæðis sem um var deilt til Orkuveitunnar að fenginni heimild Alþingis.

Orkuveitan gætti að sögn ítrustu varfærni í kaupum á landinu og gekk ekki frá kaupsamningum fyrr en löggjafinn hafði heimilað að selja hluta af umræddum jörðum sem fullkomið eignarland.

Þá segir í dóm héraðsdóms að ríkið hafi viðurkennt landamerkjabréf annarra jarða í þessu máli með því að falla frá forkaupsrétti og árita alla samninga.

Þrátt fyrir þessa gerninga gerði íslenska ríkið hins vegar þá kröfu fyrir óbyggðanefnd að stór hluti þess lands sem selt var Orkuveitunni teldist til þjóðlendu.

Héraðsdómur telur að þessi kröfugerð ríkisins hafi verið ósamrýmanleg fyrri viðskiptum ríkisins og Orkuveitunnar og því verði að fallast á þá kröfu Orkuveitunnar að viðurkenna eignarrétt Orkuveitunnar að landsvæðum sem keypt voru úr framangreindum jörðum.

Í dómsorði segir að viðurkenndur sé fullkominn eignarréttur stefnanda, Orkuveitu Reykjavíkur, að landsvæðum þeim er hann hefur keypt úr jörðunum Ytri-Þurá, Núpum I, II og III, Vatna, Kröggólfsstaða, Þúfu, Litla-Saurbæjar og Stóra- Saurbæjar í sveitarfélaginu Ölfusi og er þinglýstur eigandi að og liggja að mörkum afréttar Ölfuss í sveitarfélaginu Ölfusi og Grímsnes- og Grafningshreppi og er þar engin þjóðlenda.

Íslenska ríkinu var gert að greiða Orkuveitunni  tvær milljónir í málskostnað.

Dómur héraðsdóms Suðurlands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert