Eftir Önnu Sigríði Einarsdóttur
Alls voru 33 einstaklingar handteknir í mótmælunum sem hófust sl. þriðjudag, með setningu þings eftir jólafrí, og lauk í gær með falli ríkisstjórnarinnar. Flestar voru handtökurnar á fyrsta degi mótmælanna, en þá voru 28 teknir höndum. Fimm til viðbótar voru svo handsamaðir aðfaranótt mánudags vegna skemmdarverka sem unnin voru við Seðlabankann í kjölfar mótmælanna þar á sunnudagskvöldið.
Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir einhver málanna hafa verið afgreidd með sektargerð strax eftir handtöku, en flest verði afgreidd með öðrum hætti. „Það fólk hafnaði sátt og málið fer þá sína leið í gegnum kerfið,“ segir Friðrik Smári.
Rannsókn stendur þá enn yfir vegna árásarinnar á lögreglumennina tvo sem grýttir voru með gangstéttarhellum, sem og íkveikjutilrauna í Alþingishúsi og Stjórnarráði. „Það er verið að fara yfir myndbönd, en enginn hefur enn verið handtekinn eða kallaður í yfirheyrslu,“ segir Friðrik Smári. „Það má þó búast við að fólk verði kallað til yfirheyrslu og það svo kært, eða eftir atvikum fari málin til ríkissaksóknara til ákvörðunar.“
Að sögn Friðriks Smára hafa þeir sem andvígir eru ofbeldi verið einkar áberandi í mótmælunum frá því að upp úr sauð aðfaranótt fimmtudags. „Ég held að það hafi orðið talsverð hugarfarsbreyting almennt frá því að til þessara átaka kom þá um nóttina,“ segir hann. „Það er eins og fólk hafi áttað sig á alvöru málsins.“
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.