Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að sú ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, sjávarútvegsráðherra, að gefa út hvalveiðikvóta til næstu fimm ára sé spilling og skemmdarverkastarfsemi. Varaformaður Vinstri grænna segir, að ný ríkisstjórn muni án efa skoða þetta mál.
„Þetta er spilling ráðherra, sem hefur keypt sér vinsældir og frið með því að fara framúr ráðleggingum vísindamanna um þorskveiðar. Og þetta er skemmdarverkastarfsemi á möguleikum næstu ríkisstjórnar að vinna bug á þeim erfiðleikum sem þjóðin stendur frammi fyrir. Þetta skemmir fyrir Íslandi bæði heimafyrir og í útlöndum," sagði Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, við mbl.is
Árni sagði, að þessi ákvörðun sjávarútvegsráðherra muni spilla fyrir samstarfi Íslands við önnur ríki og viðskiptum á lykilmörkuðum þar sem Íslendingar þurfi sem mest á góðum aðgangi og velvild að halda. „Ég vona, að sá ráðherra, sem tekur við af Einari, hafi kjark og dug til að afturkalla þessa ákvörðun."
Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði við mbl.is, að það sé mjög skrýtið, að ráðherra ríkisstjórnar, sem sé að fara frá völdum, skuli nota tækifærið til að taka afdrifaríkar ákvarðanir í jafn umdeildu máli. Hún sagðist telja víst, að ný ríkisstjórn muni skoða málið.
Árni sagði, að hagsmunir Íslendinga af hvalveiðum séu engir. „Það er enginn markaður fyrir þetta. Það hrefnukjöt sem Kristján (Loftsson) flaug út með í vor er enn í tollinum í Japan og langreyðakjötið hefur aðeins sést á einum litlum veitingastað en annað virðist óselt."