Boðaðar skipulagsbreytingar Guðlaugs Þórs Þórðarsonar á heilbrigðiskerfinu verða endurskoðaðar eða afturkallaðar í nýrri ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Forystumenn VG hafa lýst þessu yfir, en allt útlit er fyrir að flokkurinn taki við heilbrigðisráðuneytinu.
Haft hefur verið eftir Steingrími J. Sigfússyni, formanni VG, að hann vilji endurskoða boðaðar skipulagsbreytingar og fresta gildistöku þeirra, komist Vinstri grænir til valda í heilbrigðisráðuneytinu.
Breytingarnar voru kynntar 7. janúar sl. og fengu strax hörð viðbrögð meðal heilbrigðisstarfsfólks og sveitarfélaga. Helstu breytingar eru þær að sameina á heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þannig að ein yfirstofnun verður í hverju umdæmi og leggja á niður St. Jósefsspítala í núverandi mynd og koma þar upp öldrunarlækningum og hvíldarinnlögn. Fljótlega eftir að ráðherra kynnti breytingarnar voru vinnuhópar skipaðir sem skila áttu tillögum að útfærslu á framkvæmdinni fyrir 19. janúar sl. Samkvæmt upplýsingum úr heilbrigðisráðuneytinu er þessi vinna langt komin og langflestir vinnuhópar búnir að skila sínum tillögum. Hafði ráðherra boðað að breytingarnar ættu að taka gildi 1. mars nk.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.