Að mati alþjóðlega matsfyrirtækisins Fitch Ratings mun hollusta nýrra stjórnvalda á Íslandi við aðgerðaáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) ráða mestu um framtíð lánshæfismats ríkissjóðs í bókum matsfyrirtækisins næsta kastið. Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hjá Fitch fyrir skuldbindingar í erlendri mynt eru nú BBB- og eru á neikvæðum horfum. Fitch, líkt og hin matsfyrirtækin sem meta lánshæfi ríkissjóðs, hefur hríðlækkað lánshæfismat ríkisjóðs í kjölfar bankahrunsins í október. Greint er frá þessu í Morgunkorni Glitnis.
Paul Rawkins sérfræðingur hjá Fitch sagði í viðtali við Reuters að ef aðgerðaáætlun IMF og íslenskra stjórnvalda myndi komast í uppnám yrðu afleiðingarnar hrikalegar. Rawkins sagði jafnframt að pólitískur óstöðugleiki væri ekki af hinu góða og gæti aukið líkurnar á frekari lækkun lánshæfismats ríkisjóðs.
„Þessar ábendingar frá Fitch er áþekkar
því sem Kenneth Orchard sérfræðingur Moody´s sagði í síðustu viku en
þá benti hann á mikilvægi þess að Ísland myndi halda sig við
aðgerðaáætlun AGS. Þá sagði Orchard að núna væri mikilvægara en nokkru
sinni fyrr að Ísland myndi tryggja stöðu sína í alþjóðasamfélaginu og
viðhalda góðum samskiptum við aðrar þjóðir," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.