Hægt að draga hvalveiðileyfi til baka

mbl.is/ÞÖK

Líklegt þykir að ný ríkisstjórn geti dregið til baka ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að heimila hvalveiðar. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra og Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, gagnrýna sjávarútvegsráðherra fyrir að taka ákvörðun í slíku máli á síðustu dögum stjórnarinnar.

Kolbrún segist ætla að sjá til þess að málið verði rætt, takist stjórnarmyndun þessara tveggja flokka. Þórunn telur líklegt að sjávarútvegsráðherra úr röðum annars hvors flokksins myndi breyta ákvörðun ráðherrans.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra segir engan vafa leika á um að hann hafi heimild til að leyfa hvalveiðar. Vísar hann til þess að sumarið 2007, þegar hann ákvað að halda áfram atvinnuveiðum, hafi það komið fram hjá Samfylkingunni að sjávarútvegsráðherra hefði stjórnskipulegt forræði á útgáfu reglugerða af þessu tagi.

Spurning vaknar um það hvort ný ríkisstjórn geti dregið reglugerðina til baka. Björg Thorarensen lagaprófessor telur að á meðan ekki hafi stofnast réttindi hjá einstaklingum vegna ákvörðunar ráðherra ætti að vera hægt að breyta henni án þess að það bakaði ríkinu skaðabótaábyrgð. Hún tekur fram að hún þekki ekki þetta tiltekna mál.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert