Hvalveiðum ætlað að tefja ESB-ferli?

Kristján Loftsson á vinnslustað í Hvalfirði.
Kristján Loftsson á vinnslustað í Hvalfirði. RAX

Frétt af því að Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra Íslands, hafi heimilað veiðar á 100 hrefnum og 150 langreiðum á næstu fimm árum, er nú efsta frétt á vísindasíðu fréttavefjar BBC.

Greint er frá því í fréttinni að ríkisstjórn Íslands sé fallin og að líkur séu á því að væntanleg bráðabrigðastjórn landsins dragi ákvörðunina til baka. Þá er staðhæft í fréttinni að margir telji ákvörðun sjávarútvegsráðherra miða að því að tefja hugsanlegar aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið. 

Fram kemur í greininni að ákvörðun Einars hafi verið harðlega mótmælt af náttúruverndarsamtökum og er þar m.a. haft eftir Árna Finnssyni, formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands að um pólitískt hermdarverk sé að ræða. „Þetta er í grunvallaratriðum skemmdarverk, unnið í biturleika gegn nýrri ríkisstjórn,” segir hann. 

Þá segir að Kolbrún Halldórsdóttir, líklegur umhverfisráðherra í nýrri bráðabrigðastjórn, hafi gefið í skyn að hún sé hlynnt því að ákvörðuninni verði snúið. Hún bendi þó á að hin nýja stjórn muni hafa mörg aðkallandi mál á sinni könnu. „Þetta er að mínu mati mjög kjánalegt af ráðherranum og ég get lofað því að eigi flokkur minn aðild að nýrri ríkisstjórn þá munum við a.m.k. ræða þetta og kanna hvað við getum gert í málinu,” sagði hún í samtali við fréttamann BBC. 

Í fréttinni er greint frá því að fráfarandi ríkisstjórn hafi áður lýst því yfir að ekki yrðu gefnir út  hvalveiðikvótar fyrr en markaðir hafi opnast fyrir hvalaafurðir. Nú státi Kristján Loftsson, forstjóri eina íslenska hvalkjötsútflytjandans og harður andstæðingur aðildar Íslands að ESB, sig hins vegar af því að hafa talið yfirvöldum trú um að svo sé.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka