Mótmæla uppsögn sjúkraliða

Heilsugæslustöðin við Efstaleiti.
Heilsugæslustöðin við Efstaleiti.

Starfsfólk Heilsugæslunnar Efstaleiti í Reykjavík hefur sent framkvæmdastjórn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins bréf, þar sem mótmælt er harðlega ákvörðun um að  leggja niður stöðu sjúkraliða, sem starfar á heilsugæslustöðinni. Uppsögnin er á þeim forsendum, að viðkomandi starfsmaður, hefur  náð 65 ára aldri.

Kynntar voru í morgun hagræðingaraðgerðir, sem framkvæmdastjórn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ætlar að grípa til og eiga að spara 370 milljónir á ári í rekstrinum. Meðal aðgerðanna er að leggja niður störf þriggja starfsmanna á sviði hjúkrunar, sem ná 65 ára aldri á árinu.

Í bréfi starfsmannanna á Efstaleiti segir, að ákvörðun um uppsögn sjúkraliðans á stöðinni hafi verið tekin án fyrirvara og án samráðs við aðra starfsmenn.

„Er það ný stefna Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að starfsmenn yfir 65 ára aldri séu óæskilegir burtséð frá vinnuframlagi, dugnaði og langri þjónustu af trúmennsku? Gerir Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sér grein fyrir því, að á komandi örfáum árum mun um helmingur lækna og hjúkrunarfræðinga ná 65 ára aldri og að ekki blasir við næg endurnýjun til að manna þær stöður i framtíðinni? Þannig má segja, að uppsögn  sjúkraliðans okkar marki upphaf að því að rýra möguleika heilsugæslunnar til að sinna mikilvægu hlutverki sínu og því  að skerða grunnþjónustu við almenning. Á viðsjárverðum tímum í þjóðfélaginu þarf að okkar áliti einmitt að standa vörð um hana," segir í bréfi starfsmannanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert