NATO-móttaka flutt á Nordica

Allt útlit er fyrir að opnunarávarp Geirs H. Haarde á …
Allt útlit er fyrir að opnunarávarp Geirs H. Haarde á NATO-málstofunni í fyrramálið verði eitt af síðustu embættisverkum hans. mbl.is/Árni Sæberg

Opnunarmóttaka fyrir um 300 gesti málstofu Atlantshafsbandalagsins, sem hefst kl. 19.00 í kvöld, hefur verið flutt frá Þjóðmenningarhúsinu yfir á Hilton Reykjavík Nordica. Að sögn Kristjáns Kristjánssonar, upplýsingafulltrúa forsætisráðuneytisins, tengist flutningurinn ekki boðuðum mótmælaaðgerðum á netinu.

Kristján segir upphaflega hafa staðið til að móttakan færi fram í Þjóðmenningarhúsinu en að með fjölda gesta í huga, sem langflestir væru erlendir, hefði verið afráðið að flytja athöfnina yfir á hótelið.

Aðspurður hvort enn standi til að Geir H. Haarde, fráfarandi forsætisráðherra, flytji ávarp á málstofunni, sem hefst og lýkur á morgun, kveðst Kristján ekki eiga von á öðru en að erindið verði eitt af síðustu verkum Geirs í embætti, jafnvel þótt að stjórnarmyndunarviðræðum ljúki í dag með nýjum forsætisráðherra.

Innt eftir því hvort enn standi til að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flytji ávarp á málstofunni segir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, að tekið verði mið af heilsu ráðherrans í fyrramálið, þegar ákvörðun um þátttöku hennar verði tekin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert