Norræn gagnrýni á aukinn hvalveiðikvóta

Rax


Norðurlöndin gagnrýna ákvörðun Íslendinga um að auka hvalveiðikvótann. Það er meðal annars tímasetning ákvörðunar um aukinn kvóta sem vekur athygli, ekki síst vegna fjármálakreppunnar. Og að auki samþykkti ríkisstjórnin aukinn kvóta, daginn eftir að tilkynnt var að hún segði af sér. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Norðurlandaráði.

„Hvalveiðar eru umdeildar bæði á Norðurlöndum og í heiminum öllum. Það er undarlegt að ríkisstjórn Íslands skuli ákveða að undirrita svo umdeildan samning í miðri fjármála- og stjórnarkreppu. Í slíkri pólitískri ringulreið ætti ekki að ræða mál sem þetta“, segir Sinikka Bohlin, þingmaður frá Svíþjóð og forseti Norðurlandaráðs.

Bohlin sagði þetta á fundi Norðurlandaráðs á Íslandi sem haldinn er dagana 27.-28. janúar. Svíþjóð fer í ár með formennsku í Norðurlandaráði sem er opinber samstarfsvettvangur þingmanna Norðurlandanna.

Norræna ráðherranefndin, það er að segja samstarfsvettvangur ríkisstjórna Norðurlandanna hefur ekki tekið afstöðu til hvalveiða á Norðurlöndum. Um annað spendýr sem lifir í vatni, selinn, hefur þó verið mikið fjallað, m.a. í ríkisstjórnum Norðurlandanna.
Í yfirlýsingu sem sjávarútvegsráðherrar Norðurlandanna samþykktu sumarið 2008, var meðal annars lögð áhersla á mikilvægi þess að auka jafnvægi milli verndunar og nýtingar selastofnsins í Eystrasaltinu og í Norður-Atlantshafi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert