„Þessar breytingar sem fjallað hefur verið um í fréttum í dag, eru liður í endurskipulagningu Ferðamálastofu. Ætlunin er að draga úr rekstrarkostnaði til þess að auka fé til þeirra verkefna sem stofnunin sinnir,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.
Fram kemur á danska vefnum Stand by að ákveðið hafi verið að loka skrifstofum Ferðamálastofu erlendis. Segir þar að skrifstofunni á Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn verði í síðasta lagi lokað í lok apríl.
Ólöf segir að skrifstofum í Kaupmannahöfn og Frankfurt verði lokað á árinu, búið sé að segja upp leigusamningum vegna húsnæðis en rekstur skrifstofu í New York, sé til endurskoðunar. Ferðamálastofa hafi ekki haft starfsmenn í öðrum löndum.
Ferðamálastofa fær samkvæmt fjárlögum þessa árs 215 milljónir króna vegna reksturs landkynningarskrifstofa erlendis. Ólöf segir að með lokun skrifstofanna í Evrópu opnist möguleikar á að nýta það fjármagn sem ella færi í rekstur skrifstofa, enn betur og á öðrum mörkuðum.
„Það er ekki verið að draga úr starfseminni heldur er þvert á móti verið að nýta það fé sem við höfum enn frekar í landkynningu og markaðssetningu íslenskrar ferðaþjónustu,“ segir Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.