Sjúkratryggingar Íslands og SÁÁ hafa gert samning um göngudeildarþjónustu fyrir þá sem eiga við áfengis- og vímuefnavanda að stríða. Samið er um 1200 greiningarviðtöl og 2400 svokallaðar meðferðarlotur og fyrir þessa þjónustu greiða Sjúkratryggingar Íslands 40 milljónir króna á árinu 2009, en samningurinn gildir til loka árs 2011.
Samningurinn byggist á samkomulagi sem samningsaðilar gerðu þann 18. desember 2008, en í því samkomulagi kemur fram að SÁÁ hafi fengið greiddar 30 milljónir króna vegna göngudeildarþjónustunnar á árinu 2008. Með greiðslunni er lokið ágreiningi um greiðslur fyrir veitta göngudeildarþjónustu á árinu, en SÁÁ skuldbindur sig til að leggja fram yfirlit vegna þjónustunnar á árinu 2008 fyrir lok febrúar nk.
Skýr ákvæði eru í samningum um göngudeildarþjónustu SÁÁ að hún er aðeins veitt eftir tilvísun frá lækni, göngudeildin sjálf skal uppfylla kröfur um aðbúnað og aðgengi og er það landlæknis að hafa eftirlit með því að þjónustan sem veitt er uppfylli faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu og uppfylli öll ákvæði heilbrigðislöggjafar.