Það eru væntanlega ekki margir fjárfestar sem horfa til Íslands um þessar mundir, enda hefur umfjöllun um Ísland á alþjóðavettvangi undanfarið verið nær öll á neikvæðum nótum. Bresk-ástralski fjárfestirinn Steve Cosser lætur það þó ekki slá sig út af laginu en hann dvaldi nýverið ásamt viðskiptafélaga sínum, Everhard Vissers, í vikutíma á Íslandi.
Meðal fjárfestinga sem þeir félagar hafa áhuga á er Árvakur (útgáfufélag Morgunblaðsins), Tónlistar- og ráðstefnuhúsið, og ýmsar opinberar byggingar. Cosser segir að upphaflega hafi hugmyndin verið að reyna að fjárfesta fyrir milljarð evra á Íslandi en sú tala geti jafnvel farið upp í tvo milljarða.
„Slíkir fjármunir gætu haft gríðarlega jákvæð áhrif fyrir íslenskan efnahag. Innspýting eiginfjár í íslenskt efnahagslíf af slíkri stærðargráðu myndi styrkja gjaldmiðilinn verulega og jafnframt vonandi laða að fleiri erlenda fjárfesta sem væru tilbúnir að taka þátt í uppbyggingu hins nýja Íslands,“ segir hann en tekur fram að ekkert sé fast í hendi ennþá.
Tveir milljarðar evra eru í dag um 320 milljarðar íslenskra króna. Til samanburðar má geta að áætluð gjöld ríkissjóðs árið 2009 eru 507,4 milljarðar.
En hvernig dettur þeim í hug að fjárfesta á Íslandi á þessum síðustu og verstu tímum? „Við vorum að velta fyrir okkur nýjum fjárfestingakostum og mér datt þá Ísland í hug. Ég hugsaði með mér að það þyrfti ekki mikið fjármagn inn í landið til að styrkja gengið og að þannig væri hægt að græða á gjaldeyrisstyrkingunni.“
Þeir ákváðu því að koma sér í samband við Íslendinga í London, sem hann segir að hafi reynst þeim mjög vel. „Heimili mitt hefur eiginlega verið eins og íslenskt sendiráð undanfarna daga; stöðugir fundir og viðræður við Íslendinga.“ sjóðsins.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.