Alveg nýr veruleiki

Niðursveifla í byggingariðnaði á þátt í atvinnuleysinu.
Niðursveifla í byggingariðnaði á þátt í atvinnuleysinu. mbl.is/Júlíus

Vinnu­mála­stofn­un áætl­ar að allt að 18.000 manns verði án vinnu í lok maí­mánuðar, ef fram held­ur sem horf­ir, og að milli 15.000 og 16.000 verði á at­vinnu­leys­is­skrá í lok fe­brú­ar­mánaðar, þegar áhrifa hópupp­sagna í haust gæti að fullu.

Aðspurður um spár Vinnu­mála­stofn­un­ar um at­vinnu­leysi á næstu mánuðum seg­ir Giss­ur Pét­urs­son, for­stjóri stofn­un­ar­inn­ar, að ráðgert sé að hlut­fall at­vinnu­lausra fari í 10 pró­sent í maí­mánuði, sem jafn­gildi því að alls um 18.000 manns verði án vinnu á land­inu öllu.

Til að setja þess­ar töl­ur í sam­hengi tel­ur Giss­ur að er­lend­ir starfs­menn hafi verið flest­ir hátt í 20.000 og að um þriðjung­ur, eða 6.000 manns úr þeim hópi, hafi nú snúið aft­ur til síns heima.

Karl Sig­urðsson, for­stöðumaður vinnu­mála­sviðs hjá Vinnu­mála­stofn­un, tek­ur und­ir með Giss­uri að at­vinnu­leys­istöl­urn­ar nú séu án for­dæm­is á síðari tím­um.

„Þetta er al­veg nýr veru­leiki. Ég þekki ekki sög­una nógu vel en á síðustu ára­tug­um er þetta al­veg nýtt. Við höf­um aldrei séð at­vinnu­leysi hærra en á milli sjö og átta pró­sent í ein­um mánuði, í janú­ar­mánuði 1995, held ég að það hafi verið.“

Aðspurður um hversu marg­ir hafi geng­ist und­ir tekju­skerðingu á síðustu mánuðum seg­ir Karl að Vinnu­mála­stofn­un hafi ekki töl­ur um það.

Fjöldi þeirra sem fái bæt­ur á móti skertu starfs­hlut­falli hafi hins veg­ar verið kom­inn í á milli 600 og 700 í lok des­em­ber.

„Það hef­ur fjölgað jafnt og þétt síðan,“ sagði Karl aðspurður um þró­un­ina í þess­um hópi. „Það er ekki hægt að fá nein­ar ná­kvæm­ar töl­ur um það fyrr en eft­ir mánaðamót­in, þegar janú­ar­mánuður verður gerður upp end­an­lega.“ 

Innt­ur eft­ir því hversu marg­ir Vinnu­mála­stofn­un áætli að muni bæt­ast á at­vinnu­leys­is­skrá í fe­brú­ar seg­ir Karl erfitt um það segja.

Sam­kvæmt hópupp­sögn­um sem hafi borist megi ætla að yfir 1.000 manns muni bæt­ast á skrána vegna hópupp­sagna í haust, nú þegar þriggja mánaða upp­sagna­frest­ur sé á enda.  

Að sam­an­lögðu megi því ráðgera að á milli 2.500 og 3.000 muni bæt­ast á at­vinnu­leys­is­skrána í fe­brú­ar.

Á vef Vinnu­mála­stofn­un­ar kem­ur fram að fjöldi at­vinnu­lausra sé nú 12.879.

Útfrá því má ætla að heild­ar­fjöldi at­vinnu­lausra í lok fe­brú­ar verði því allt að hátt í 16.000.

Karl bend­ir hins veg­ar á að reikna megi með því að 500 manns fari af skránni eft­ir janú­ar og á þá m.a. við ein­stak­linga sem hafa farið í nám eða fengið aft­ur vinnu. Þá hafi hluti skráðra ekki bóta­rétt, auk þess sem nokk­ur hóp­ur fái bæt­ur á móti hluta­starfi. Einnig séu á skránni sjálf­stætt starf­andi ein­stak­ling­ar sem hafi ennþá ein­hverj­ar tekj­ur af sinni starf­semi.

Gissur Pétursson
Giss­ur Pét­urs­son
Karl Sigurðsson
Karl Sig­urðsson
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert