Bensínlaus í Ártúnsbrekkunni á háannatíma

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðaði ökumann bifreiðar sem varð bensínlaus í Ártúnsbrekkunni á háannatíma, eða í miðri morgunumferðinni. Að sögn lögreglu hafði bifreiðin staðnæmst með tilheyrandi töfum fyrir aðra ökumenn.

„Lögreglan brást skjótt við og spurði ökumanninn hvað amaði að. Sá sagði að bíllinn væri bensínlaus og því kæmist hann hvergi. Hinn sami sagði jafnframt að honum hefði verið fullljóst að mjög lítið bensín hefði verið á bílnum en hann ákvað samt að reyna að komast í vinnuna. Maðurinn komst reyndar í vinnuna þennan morgun en það var seint og um síðir. Hefði hann sýnt fyrirhyggju og tekið bensín í tíma hefði mátt komast hjá þessum óþægindum sem voru með öllu óþörf. Með trassaskapnum tafði hann einnig fyrir öðrum vegfarendum svo ekki sé nú minnst á slysahættuna,“ segir á vef lögreglunnar.

Þá segir lögreglan að það sé ekki hlaupið að því að fjarlægja ökutæki við þessar aðstæður. Það geti beinlínis verið lífshættulegt.

Lögreglan segir að því miður séu til fleiri dæmi af þessu tagi en nýverið komu upp sömu aðstæður á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar. Þar hafði ökutæki stöðvast af sömu ástæðu og ökumaðurinn einnig trassað að fylla á tankinn, vitandi það að bíllinn væri svo gott sem bensínlaus.

Í ljósi þessa hvetur lögreglan ökumenn til að sýna meiri ábyrgð og stuðla þannig að eigin öryggi sem og annarra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert