Vörukarfa ASÍ hefur hækkað um allt að 35,4% frá því að verðlagseftirlitið hóf mælingar á körfunni í öllum helstu matvöruverslunarkeðjum í apríl í fyrra. Vörukarfan, sem inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur til heimilisins, hefur á þessu níu mánaða tímabili hækkað mest í lágvöruverðsverslunum um 30%-35% og í klukkubúðum um 24%-26%.
Af þeim tíu verslunarkeðjum þar sem verð vörukörfunnar er mælt hefur verðið hækkað mest í Bónus, um 35,4% frá því í apríl og um 34,1% í Kaskó. Í Nettó hefur karfan hækkað um 30,6% og í Krónunni um 29,4%.
Í klukkubúðunum hefur verð körfunnar hækkað mest í Samkaupum-Strax eða um 26,4% frá því í vor. Í 11-11 nemur hækkunin 24,6% og í 10-11 hefur vörukarfan hækkað um 23,8% á síðustu níu mánuðum.
Minnst hækkun í Nóatúni og Hagkaup
Í stórmörkuðunum hefur karfan hækkað mest í Samkaupum-Úrval um 21,2% en minnstar hækkanir á vörukörfunni á tímabilinu hafa hins vegar verið í Nóatúni 14,3% og í Hagkaupum 14,5%.