Þremur deildum verður slegið saman í eina á öldrunarsviði Landspítalans á Landakoti vegna sparnaðar en alls þarf Landspítalinn að spara um 1700 millljónir. Við þetta fækkar leguplássum fyrir 20 aldraða skjólstæðinga stofnunarinnar en sextíu til áttatíu bíða eftir þjónustu á þessum þremur deildum. Ein þessara deilda er dagdeild en á hinum liggja sjúklingar inni fimm daga vikunnar en fara heim um helgar. Pálmi V. Jónsson yfirlæknir segir þetta illskásta sparnaðarkostinn. Hann segir þó að á Landakoti sé boðið upp á meðferð, greiningu og endurhæfingu, sem auðveldi öldruðum að búa heima. Hægt sé að bjóða slíka þjónustu fyrir 200 manns fyrir sömu upphæð og kostar að vista fimmtán aldraða inni á hjúkrunarheimili. Sjá MBL sjónvarp.