Yfirmaður herafla NATO í Evrópu segir, að það verði ekki auðvelt fyrir Barack Obama, Bandaríkjaforseta, að loka fangabúðum Bandaríkjahers við Guantánamoflóa á Kúbu. Óvíst sé, að sum lönd vilji taka við föngum þótt þeir eigi þar ríkisborgararétt.
John Craddock, yfirmaður herafla NATO í Evrópu, er staddur á Íslandi vegna ráðstefnu um öryggismál á norðurslóðum. Hann var yfirmaður suðurflota Bandaríkjahers á árunum 2004-2006 og bar þá ábyrgð á Guantánamo-fangabúðunum. Þar eru enn 245 fangar. Obama hefur fyrirskipað að búðunum verði lokað innan árs en óvíst er hve margir fangar verða sóttir til saka og hvert margir þeirra verða sendir.
Craddock segist í viðtali við AP fréttastofuna einnig hafa áhyggjur af því að margir þeirra fanga, sem verið hafa í búðunum, muni skipuleggja nýjar árásir á Bandaríkin og bandalagsríki þeirra.