Hæstiréttur hefur sýknað karlmann af ákæru fyrir kynferðislega áreitni en maðurinn var ákærður fyrir að hafa gripið um og kreist rasskinn konu þegar þau voru í rennistiga í verslunarmiðstöðinni Smáralind.
Maðurinn var einnig sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur. Konan bar fyrir dómi að hún hefði verið ásamt manni sínum og börnum í verslunarleiðangri en verið ein á ferð í rennistiga á leið upp á efri hæð verslunarmiðstöðvarinnar þegar annar tveggja manna, sem stóðu fyrir aftan hana í stiganum, greip þrisvar sinnum í hægri rasskinn hennar.
Konan sagðist hafa reiðst mjög og snúið sér við og gert sig líklega til að slá manninn en náð að halda aftur af sér. Maðurinn hefði horft á hana með bros á vör og hefði hún talið ásetning hans hafa verið af kynferðislegum toga.
Konan kallaði til lögreglu, sem hafði uppi á mönnunum tveimur þar sem þeir sátu á veitingastað. Lögregla ræddi við þann, sem grunaður var um áreitnina en hann var undir áhrifum áfengis. Hann sagðist hafa ætlað að reyna að vera fyndinn fyrir framan vin sinn og því klipið tvisvar sinnum í hægri rasskinn konunnar. Segir síðan í lögregluskýrslunni að ákærði hafi sagt „fyrirgefðu ég hélt að þú værir frænka mín” en það hafi bara verið uppspuni.
Eftir að konan lagði fram kæru var maðurinn yfirheyrður á ný og sagðist hann þá hafa klappað laust á mjóbakið á konunni. Konan hefði snúið sér við og sagðist maðurinn hafa séð að henni var brugðið. Maðurinn sagði að sér hefði einnig brugðið þar sem hann hefði haldið að þetta væri frænka sín.
Hæstiréttur segir að ekki sé unnt að byggja á því sem lögreglumenn báru fyrir dómi um að maðurinn hafi sagt þeim á vettvangi. Þá yrði að leggja til grundvallar að maðurinn hafi klappað eða slegið til konunnar og að snertingin hafi verið við neðanvert mjóbak hennar. Slíkt sé ekki refsiverð hegðun samkvæmt hegningarlögum. Var maðurinn því sýknaður.
Einn dómari af þremur í Hæstarétti, Ingibjörg Benediktsdóttir, skilaði sératkvæði og vildi sakfella manninn. Segir hún að sú háttsemi mannsins að grípa ofarlega í rass bláókunnugrar konu sem stóð fyrir framan hann í rúllustiga feli án nokkurs vafa í sér kynferðislega áreitni sem falli undir 199. grein almennra hegningarlaga.