Fréttaskýring: Er tíminn réttur fyrir nýtt kvennaframboð?

Neyðarstjórn kvenna hefur verið sýnileg í mótmælum á Austurvelli síðustu …
Neyðarstjórn kvenna hefur verið sýnileg í mótmælum á Austurvelli síðustu vikurnar. Nú hefur stjórnin boðið til stofnfundar nýrrar stjórnmálahreyfingar kvenna í kvöld. Kristinn Ingvarsson

Neyðar­stjórn kvenna hef­ur í kvöld boðað til stofn­fund nýrr­ar stjórn­mála­hreyf­ing­ar kvenna sem áform­ar að bjóða sig fram í kom­andi alþing­is­kosn­ing­um. Fund­ur­inn verður hald­inn að Hall­veig­ar­stöðum á Túngötu 14 og byrj­ar kl. 20.

Líkt og gilti um Kvenna­list­ann á sín­um tíma er hug­mynd­in sú að hér verði ein­vörðungu um kvenna­fram­boð að ræða. Marg­ir spyrja sig vafa­lítið hvort sér­stakt kvenna­fram­boð sé nauðsyn­legt nú á tím­um til þess að koma bar­áttu­mál­um kvenna að og stuðla að auknu jafn­rétti í sam­fé­lag­inu eða hvort hér sé um tíma­skekkju að ræða þegar ljóst er allt út­lit virðist á því að fyrsta kon­an setj­ist senn í stól for­sæt­is­ráðherra og all­ar lík­ur virðast á því að kynja­hlut­fall milli ráðherra í næstu rík­is­stjórn verði jafnt.

Í sam­töl­um blaðamanns við nokkra femín­ista varð ljóst að mjög skipt­ar skoðanir eru í þeirra röðum á því hvort kvenna­fram­boð feli í sér fleiri kosti eða galla. Sum­ar nefndu að í því upp­lausn­ar­ástandi sem nú ríki sé ein­mitt góður tími til þess að breyta sam­fé­lag­inu og því kjörið að bjóða upp á kvenna­fram­boð.

All­ar voru þær sam­mála um að mik­il­vægt væri að öll kvenna­hreyf­ing­in stæði að baki slíku fram­boði af að yrði, en það sé ekki reynd­in í dag. Einnig var bent á að það hversu vel til tæk­ist með kvenna­fram­boð ylti vita­skuld á því hversu marg­ar öfl­ug­ar kon­ur gæfu kost á sér í slíku fram­boði.

Er kynið nógu sterk­ur sam­nefn­ari?
Óneit­an­lega er ein þeirra spurn­inga sem fyrst skjóta upp koll­in­um sú hvort kvenna­fram­boð hefði sama slag­kraft í dag og það hafði í upp­hafi ní­unda ára­tug síðustu ald­ar þar sem staða kvenna í dag sé gjör­ólík því sem hún var þá.

Þannig má nefna að á ár­un­um 1922-71 átti að jafnaði aðeins ein til tvær kon­ur sæti á Alþingi og á ár­un­um 1971-83 voru þing­kon­ur aðeins þrjár. Á móti má benda að þó kon­um á þingi hafi fjölgað sé enn nokkuð í land að hlut­fall kynja á þingi verði jafnt og þar séu Íslend­ing­ar eft­ir­bát­ar hinna Norður­landaþjóðanna.

Einn viðmæl­anda Morg­un­blaðsins velti fyr­ir sér hvernig myndi ganga að sam­eina kon­ur í kvenna­fram­boði. „Þó kynið sé auðvitað ákveðinn sam­nefn­ari þá eru kon­ur jafn marg­ar og þær eru mis­mun­andi. Það er því spurn­ing hvort kvenna­fram­boð geti rúmað slíkt, enda vand­séð að kon­ur á vinstri væng stjórn­mál­anna ann­ars veg­ar og kon­ur á hægri væng stjórn­mál­anna hins veg­ar geti orðið sam­mála um áhersl­ur og út­færslu­leiðir,“ sagði femín­isti sem mörg sl. ár hef­ur verið virk­ur í jafn­rétt­is­bar­átt­unni.

Sagðist viðkom­andi frek­ar vilja sjá öfl­uga kvenna­hreyf­ingu sem gæti veitt kröft­ugt aðhald jafn­framt því að styðja við bakið á þeim kon­um sem nú þegar væri starf­andi í stjórn­mála­flokk­un­um.

Fel­ur sjálf­krafa í sér gagn­rýni á starf­andi flokka
Marg­ir viðmæl­enda sögðust ein­mitt binda von­ir við það að sér­stakt kvenna­fram­boð gæti virkjað kon­um til stjórn­málaþátt­töku sem ekki hefðu haft áhuga á slíku starfi áður þar sem upp­bygg­ing og starf stjórn­mála­flokka væri of karllægt og höfðaði því ekki jafn­vel til kvenna.

Með kvenna­fram­boði gætu kon­ur tekið þátt í stjórn­mál­um á sín­um for­send­um, auk þess sem í sér­stöku kvenna­fram­boði fæl­ist sterk gagn­rýni á hina hefðbundnu flokka fyr­ir að hafa ekki sinnt kon­um sem skyldi inn­an flokk­anna. Sagðist viðkom­andi sann­færð um að kæmi til sér­staks kvenna­fram­boðs myndi það frek­ar hafa já­kvæð áhrif á aðra flokka en nei­kvæð, líkt og varð þegar Kvenna­list­inn sál­ugi kom fram á sín­um tíma en þá brugðust flokk­arn­ir við með því að gera kon­ur sýni­legri á fram­boðslist­um sín­um.

Þessu sjón­ar­miði var ann­ar viðmæl­andi ekki sam­mála og sagðist ótt­ast að með til­komu sér­staks kvenna­fram­boðs væri frek­ar hætta á því að hinir hefðbundnu flokk­ar myndu fjar­lægj­ast stefnu sína í jafn­rétt­is­mál­um þar sem þeir gætu bent á sér­fram­boð jafn­rétt­inu til stuðnings.

Benti viðkom­andi á að kon­ur hefði verið sýni­leg­ar í for­ystu inn­an allra stjórn­mála­flokk­anna á umliðnum árum. Ef kon­ur sem verið hefðu áber­andi í nú­ver­andi stjórn­mála­flokk­um gengi til liðs við kvenna­fram­boðið væri ákveðin hætta á því að marg­ir myndu túlka það sem svo að þeim hefði mistek­ist veg­ferðin inn­an hinna flokk­anna sem svo aft­ur gæti leitt til gagn­rýni ekki aðeins á þær held­ur einnig flokk­anna sem þær störfuðu með áður.


Að mati eins viðmæl­anda Morg­un­blaðsins væri væn­legra til ár­ang­urs í jafn­rétt­is­bar­át­unni ef þær kon­ur og femín­ist­ar, sem í dag starfa á vett­vangi stjórn­mála­flokk­anna, tækju hönd­um sam­an og styddu bar­áttu­mál kvenna óháð flokkslín­unni. Benti ann­ar í því sam­hengi á að þetta hefði verið reynt í tengsl­um við vænd­is­frum­varpið á sín­um tíma en án ár­ang­urs, þar sem kraf­an um að hver spilaði með sínu liði, þ.e. fylgdi sinni flokkslínu, væri svo rót­gró­in og sterk hér­lend­is að ógern­ing­ur væri að bregða þar út af.


mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert