Hætt við þriggja hæða mislæg gatnamót

Borgarráð staðfesti á fundi sínum í dag að horfið hefur verið frá þriggja hæða mislægum gatnamótum við Miklubraut og Kringlumýrarbraut.  Þriggja hæða mislæg gatnamót voru eitt helsta stefnumál Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, að því er segir í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar í borgarstjórn.

„Borgarráð var með ákvörðun sinni að staðfesta niðurstöðu samráðshóps um umferðarmál á gatnamótunum en hann var settur á fót á síðasta ári að tillögu Samfylkingarinnar. Eftir að hópurinn hafði farið yfir umferðartölur og önnur gögn náðist samstaða um að í stað mislægra gatnamóta á þremur hæðum yrði Miklabraut lögð í stokk en núverandi gatnamót héldu sér að öðru leyti. Útfærsla þessa efnis var lögð fram í samráðshópnum af fulltrúum íbúasamtaka Hlíðahverfis.

Áðurnefnd niðurstaða telst ótvírætt til tímamóta. Vaknar sú spurning að með henni hafi Sjálfstæðisflokkurinn tekið upp ný viðhorf í samgöngu- og skipulagsmálum Reykjavíkur. Er ástæða til að taka undir orð Gísla Marteins Baldurssonar borgarfulltrúa sem var formaður samráðshópsins um að sérstakt fagnaðarefni sé að þetta áratuga deilumál hafi nú leyst í sátt. Fulltrúi Samfylkingarinnar í samráðshópnum var Stefán Benediktsson varaborgarfulltrúi og arkitekt," að því er segir í tilkynningu frá Degi.

Sameiginleg bókun borgarráðs var svohljóðandi:

„Borgarráð fagnar niðurstöðu starfshópsins og þeirri lausn sem þar er kynnt vegna framkvæmda við Miklubraut/Kringlumýrarbraut. Borgarráð þakkar starfshópnum góð störf og þá samstöðu sem nú hefur, með þverpólitísku samráði og öflugri aðkomu íbúasamtaka, verið tryggð um þetta brýna hagsmunamál borgarbúa."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert