Hæstiréttur staðfesti í dag niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur að kona ætti rétt á því að fá helming af samanlögðum lífeyrisrétti hennar og fyrrverandi eiginmanns og féllst ekki á kröfum eiginmannsins fyrrverandi um að halda lífeyrisréttindum þeirra utan skipta. Var manninum gert að greiða konunni 4 milljónir króna auk dráttarvaxta auk átta hundruð þúsund krónur í málskostnað fyrir héraði og Hæstarétti.
Taldi Hæstiréttur að þegar litið væri á tímalengd samanlagðs sambúðartíma, verkaskiptingu þeirra á milli þann tíma, aðrar aðstæður og mismunar á verðmæti lífeyrisréttinda þeirra við lok hjúskaparins, yrði að fallast á það með héraðsdómi að ósanngjarnt teldist í skilningi hjúskaparlaga að halda lífeyrisréttindum þeirra utan skipta líkt og maðurinn hafði krafist.
Hjónin kynntust árið 1972 en hófu sambúð árið 1976. Þau giftu sig árið 1984 og eiga saman þrjú börn fædd 1984, 1989 og 1991. Þau slitu samvistum 2005 og var gengið frá skilnaðarsamningi 2006.
Konan er BS próf í landafræði og próf í uppeldis- og kennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands með kennsluréttindi í efri bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla. Einnig er hún með Dipl. Ed. gráðu í uppeldis- og menntunarfræðum í stærðfræði frá sama skóla.
Maðurinn er með embættispróf í læknisfræði frá Háskóla Íslands og sérfræðinám í heimilislækningum frá Svíþjóð.
Meðan á hjúskap stóð var konan að mestu heimavinnandi á meðan börnin voru ung, en maðurinn var í fullri vinnu, eftir að námi hans lauk. Liggur ekki annað fyrir en að fullt samkomulag hafi verið með þeim um þá verkaskiptingu, samkvæmt málskjölum héraðsdóms.
Á sambúðartíma fyrir hjónaband var konan útivinnandi allt til ársins 1983 er þau fluttu til Svíþjóðar, en hann var í námi á þeim tíma. Eftir að þau gengu í hjónaband vann konan stopult, og þá yfirleitt hlutastarf, en maðurinn vann fulla vinnu og voru tekjur hans allmiklu hærri en tekjur hennar. Ávann hann sér þannig einnig mun hærri lífeyrisréttindi en konan og snérist ágreiningur þeirra fyrir dómi um hlutdeild konunnar í þeim réttindum.