Umboðsmaður barna og talsmaður neytenda hafa gefið út ítarlegar leiðbeiningarreglur um aukna neytendavernd barna þar sem leitast er við að finna gott jafnvægi varðandi mörk við markaðssókn fyrirtækja gagnvart börnum og unglingum.
Eftir þriggja og hálfs árs samstarf talsmanns neytenda og umboðsmanns barna og samráð embættanna við um 100 aðila undanfarið hálft annað ár hafa embættin nú gefið formlega út leiðbeinandi reglur til fyrirtækja og annarra hagsmunaaðila um hvar mörkin liggja gagnvart markaðssókn sem beinist að börnum.
Í reglunum er m.a. að finna ákvæði um að ekki skuli markaðssetja gagnvart börnum, vöru eða þjónustu sem ekki er ætluð þeim. Leitast ber við að hafa ekki sælgæti nærri kassa í dagvörumörkuðum og kynferðislega opinskátt efni á ekki að vera áberandi í verslunum þar sem börn venja komur sínar. Þá er mælst til þess að fram til 18 ára aldurs verði aðeins boðið upp á debetkort sem eru síhringikort.
Í reglunum segir ennfremur að engar auglýsingar ættu að vera í barnatíma í sjónvarpi og að gæta skuli hófs í auglýsingum í seldu barnaefni á DVD-diskum. Í reglunum er að finna ákvæði um starfsemi skóla og æskulýðsstarfsemi, m.a. um kostun og aðra markaðssókn.
Í samráði við Neytendasamtökin var ákveðið að leiðbeiningarnar tækju gildi á alþjóðadegi neytendaréttar 15. mars 2009. Þannig gefst fyrirtækjum, fjölmiðlum og öðrum rúmur tími til þess að undirbúa sig áður en farið verður að fylgja leiðbeiningunum eftir af hálfu talsmanns neytenda og umboðsmanns barna og annarra.
Auk Neytendasamtakanna hefur verið haft ítrekað samráð á alls um 80 fundum og bréfaskiptum við lykilaðila í fræðasamfélagi. Má þar nefna meðal annars opinbera aðila, hagsmunasamtök launafólk, framhaldsskólanema og skólastjórnendur: Jafnframt hefur verið leitað samráðs við önnur almannasamtök, fyrirtæki og ekki síst hagsmunasamtök atvinnurekenda en kjarninn í hugmyndafræðinni er að sem flestir eigi þess kost að hafa áhrif á niðurstöðuna og auka þar með líkur á því að leiðbeiningunum verði fylgt. Einnig var með aðstoð stjórnenda og kennara í Víkurskóla í Reykjavík leitað eftir skoðunum hóps skólabarna.