Fréttaskýring: Nýtt verk, sömu leikarar

Stjórnarmyndunarviðræður í Alþingishúsinu í gærmorgun. Steingrímur J. Sigfússon er í …
Stjórnarmyndunarviðræður í Alþingishúsinu í gærmorgun. Steingrímur J. Sigfússon er í forsvari fyrir Vinstri græna og Jóhanna Sigurðardóttir í forsvari fyrir Samfylkinguna. mbl.is/RAX

Nokkrir þeirra, sem leika stærstu hlutverkin við myndun nýrrar ríkisstjórnar, eiga það sameiginlegt að hafa setið saman í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar frá 1988 til 1991. Í þeirri ríkisstjórn áttu sæti meðal annarra Jóhanna Sigurðardóttir, verðandi forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, verðandi fjármálaráðherra, og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sem veitti stjórnarmyndunarumboðið nú. Jóhanna var félagsmálaráðherra, Steingrímur landbúnaðar- og samgönguráðherra og Ólafur Ragnar fjármálaráðherra.

Jóhanna átti í sæti í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks, sem mynduð var árið áður undir forsæti Þorsteins Pálssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Sú ríkisstjórn sprakk haustið 1988 vegna ágreinings um efnahagsaðgerðir. Í framhaldinu myndaði Steingrímur stjórn Framsóknarflokksins, Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins. Stefán Valgeirsson studdi stjórnina gegn því að fá formennsku í nýjum sjóði til styrktar sjávarútvegi. Hann hafði áður gert kröfu um að vera samgönguráðherra.

Borgaraflokkurinn tók þátt í stjórnarmyndunarviðræðunum en ekkert varð af þátttöku hans. Af bréfi sem Steingrímur Hermannsson ritaði Alberti Guðmundssyni, formanni Borgaraflokksins, mátti ráða að helst hefði strandað á kröfu Borgaraflokksins um að fá embætti utanríkisráðherra í nýrri stjórn. Albert svaraði Steingrími og sagði að mestu hefði ráðið andstaða Alþýðubandalagsins við Borgaraflokkinn. Harmaði Albert hve sterk ítök Alþýðubandalagið hefði haft við myndun stjórnarinnar. Ári seinna, eða 10. september 1989, gekk Borgaraflokkurinn til liðs við stjórnina og þeir Júlíus Sólnes og Óli Þ. Guðbjartsson urðu ráðherrar.

Óánægja með valið á Steingrími

Ráðherrar Alþýðubandalagsins í stjórninni voru þeir Ólafur Ragnar Grímsson, Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon. Ólafur Ragnar var á þessum tíma formaður Alþýðubandalagsins en var ekki kjörinn alþingismaður.

Af fréttum frá þessum tíma má ráða að nokkur óánægja hafi verið innan Alþýðubandalagsins með valið á Steingrími. Vildu margir að kona yrði þriðji ráðherra flokksins í stjórninni. Tvær konur voru í þingflokki Alþýðubandalagsins á þessu kjörtímabili, Guðrún Helgadóttir og Margrét Frímannsdóttir. Ólafur Ragnar gaf þá skýringu á blaðamannafundi að hann hefði talið rétt að þriðji ráðherrann væri af landsbyggðinni. Steingrímur var þingmaður í Norðurlandskjördæmi eystra, Svavar var þingmaður Reykvíkinga og Ólafur Ragnar varaþingmaður Reyknesinga. „Við höfum ekki getað leyft okkur eins og félagar okkar í Alþýðuflokknum að vera með alla ráðherrana okkar hérna af Suðvesturhorninu,“ sagði Ólafur Ragnar á blaðamannafundinum. Guðrún Helgadóttir varð í staðinn forseti Sameinaðs Alþingis.

Ólafur Ragnar Grímsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, ásamt …
Ólafur Ragnar Grímsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, ásamt öðrum ráðherrum við ríkisstjórnarborðið á Bessastöðum 1988. Vigdís Finnbogadóttir var forseti á þessum árum. mbl.is/Gunnar Vigfússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert