Opnast Icesave-málið að nýju?

Retuers

Fari svo að Vinstri grænir (VG) standi við fyrri kröfur sínar varðandi skuldbindingar íslenska ríkisins vegna Icesave-reikninga Landsbankans er líklegt að VG og Samfylkingin þurfi að leita nýrra lausna í málinu, sé mið tekið af því hvernig ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks lauk málinu.

Það var gert með samkomulagi við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi um að ábyrgjast lágmarkstryggingu á innistæðum, 20.887 evrur, á hvern reikning. Samtals er talið að íslenska ríkið sé bakábyrgt fyrir fjárhæðum sem geta numið 600 til 700 milljörðum króna.

Vinstri grænir gagnrýndu nýfallna ríkisstjórn harðlega fyrir það hvernig haldið var á Icesave-málinu og fór formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon, mikinn í ræðustól á Alþingi vegna málsins. Í desember, þegar ljóst var að íslenska ríkið myndi sættast á að borga lágmarkstryggingu á innistæðum miðað við tilskipanir sem í gildi eru á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), sagði Steingrímur að ekki væri hægt að líta á lendingu ríkisstjórnarinnar sem „lausn“ heldur hreinan ósigur. „Þegar ákveðið var að sækja um lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum varaði undirritaður strax sterklega við að í þeirri ákvörðun og því ferli sem Ísland lenti þar inn í gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fælist jafnframt baneitruð tenging yfir í hina óleystu deilu um Icesave-reikninganna. Þessu var í fyrstu neitað og sagt að ekki kæmi til greina að láta kúga okkur til uppgjafar í því deilumáli til þess eins að geta leitað á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Allt var þetta síðan gefið eftir af ríkisstjórninni. Það sem menn hafa í þessu sambandið kallað „lausn“ er í raun ekkert annað en uppgjöf, ósigur, tap,“ sagði Steingrímur.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur tekið enn dýpra í árina en Steingrímur og sagt það því sem næst óréttlætanlegt að færa skuldir vegna Icesave-reikninga Landsbankans yfir á komandi kynslóðir, án þess að úr málinu sé skorið fyrir dómstólum. Sigmundur Davíð sagði á vefsíðu sinni 14. janúar sl.: „Eins og áður sagði þá varð niðurstaðan sú að íslensk stjórnvöld samþykktu að ábyrgjast lágmarksupphæð samkvæmt tilskipunum EES-samningsins. Með öðrum orðum, sú ofurvaxna ábyrgð sem ríkisstjórnin hefur núna fallist á að íslensk heimili og fyrirtæki taki á sig fyrir bresk stjórnvöld og Evrópusambandið fær ekki staðist.“

Þá hefur Sigmundur Davíð ennfremur fullyrt að eignir Landsbankans muni ekki geta gengið upp í skuldina þannig að minni hluti heildarskuldarinnar, eða um 150 milljarðar, lendi á íslenska ríkinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert