Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur farið fram á það að Sparisjóður Bolungarvíkur endurskoði vaxtakjör afturvirkt á viðskiptareikningi Bolungarvíkur og/eða felli niður lán allt að 15 milljónum króna. Einnig hefur nefndin lagt til við Íbúðalánasjóð að hann aflétti skuldum vegna félagslegra íbúða hjá Bolungarvík að fjárhæð 146 m.kr. Þetta kemur fram á vef Bæjarins besta.
Eftirlitsnefndin hefur einnig lagt til við
samgönguráðherra að sveitarfélaginu verði veittur styrkur úr Jöfnunarsjóði
sveitarfélaga, allt að 67 m.kr., sem nýttur verði til að greiða niður
eftirstöðvar skulda sem sveitarsjóður hefur tekið að láni hjá Sparisjóði
Bolungarvíkur og Landsbanka Íslands vegna félagslega húsnæðiskerfisins. Hluta
framlagsins verði varið til að standa straum af kostnaði vegna sérfræðivinnu við
fjárhagslega ráðgjöf til Bolungarvíkur.
Nefndin fer einnig fram á að
umhverfisráðuneytið endurgreiði Bolungarvík 24 m.kr. sem sveitarfélagið hefur
lagt til Náttúrstofu Vestfjarða í Bolungarvík umfram það sem samningur við
ráðuneytið segir til um. Þetta kemur fram í bréfi nefndarinnar til
samgönguráðherra. Jafnframt leggur nefndin til að undirbúningur verði hafinn á
sameiningu Bolungarvíkur og Ísafjarðarbæjar.
„Tillögur Eftirlitsnefndar
með fjármálum sveitarfélaga (EMFS) um 250 mkr. skuldalækkun og 140 mkr.
lánveitingu, falla vel að markmiðum samnings bæjarstjórnar við EMFS, sem
undirritaður var þann 7. október 2008, um niðurgreiðslu skulda og
endurskipulagningu í fjármálum og eignastýringu sveitarfélagsins,“ segir í bókun
meirihluta bæjarráðs Bolungarvíkur um bréf EMFS til samgönguráðherra. Segir
meirihlutinn tillögurnar ásamt fjárhagsáætlun Bolungarvíkurkaupstaðar 2009 falla
vel að markmiðum meirihluta bæjarstjórnar Bolungarvíkur um ábyrga
fjármálastjórn, aðhald í rekstri og endurfjármögnun óhagstæðra lána
sveitarfélagsins, að því er segir í frétt BB.