Færeyski vinnumarkaðurinn mun ekki sætta sig við að Íslendingar vinni í Færeyjum fyrir lægri laun en heimamenn, að sögn Samtaks. Samtak eru samtök þriggja stórra verkalýðsfélaga í Færeyjum. Talsvert hefur verið rætt í færeyskum fjölmiðlum undanfarið um að íslenskir verktakar njóti forskots á heimamenn vegna slaks gengis íslensku krónunnar.
Viðgerð á ytra byrði Landssjúkrahússins í Þórshöfn var boðið út nýlega. Þegar tilboðin voru opnuð 13. janúar síðastliðinn kom í ljós að íslensk verktakafyrirtæki áttu þrjú lægstu tilboðin. Umræðan í kjölfarið minnir óneitanlega á umræðuna hér fyrir nokkrum árum um innflutning ódýrs vinnuafls frá útlöndum.
Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks sem átti lægsta tilboðið í viðgerðina á Landssjúkrahúsinu, taldi að um misskilning sé að ræða. Hann er nýkominn frá Færeyjum.
„Það er ekkert sá launamunur á milli landanna sem slegið var upp í fréttum í Færeyjum í gær. Auðvitað spilar gengismismunur frá degi til dags inn í þetta. Síðustu daga hefur gengi íslensku krónunnar t.d. styrkst um 10%. Ég held að þetta sé óígrundað upphlaup og eitthvert fljótræði. Það eru mjög svipuð laun í löndunum tveimur,“ sagði Þorvaldur.
Ekki hefur enn verið skrifað undir samning um að ÞG Verk taki verkið að sér. Þorvaldur bjóst við að það gæti orðið í næstu viku.
-En stóð til að fara með íslenska vinnuflokka til Færeyja?
„Það liggur ekkert fyrir um það, vafalaust verður það að einhverju leyti. Ég veit ekki hver sú skipting gæti orðið,“ sagði Þorvaldur.
-Byggðist hagstætt tilboð ÞG Verks á því að vera með ódýrara vinnuafl en Færeyinga?
„Það byggðist að hluta til bæði á því að geta nýtt vinnuframlag og sérfræðivinnu að einhverju leyti frá Íslandi,“ sagði Þorvaldur. Fyrirtæki hans er með starfsemi í Færeyjum og á þar systurfélög.
Í færeyskum fréttum, t.d. í færeyska útvarpinu, hafa menn velt því fyrir sér hvort slakt gengi íslensku krónunnar hafi gefið íslensku verktökunum forskot á heimamenn. Rætt hefur verið um hvort þetta samrýmist Hoyvíkursáttmálanum, fríverslunarsamningnum milli Færeyja og Íslands. Málið bar m.a. á góma í færeyska Lögþinginu í gær. Þar sagði Jörgen Niclasen, landsstjórnarmaður sem fer með utanríkismál, að ekkert banni íslenskum verktökum í Færeyjum að greiða íslenskum starfsmönnum sínum þar íslensk laun.
Eli Brimsvik, talsmaður iðnaðarmannafélagsins í Þórshöfn og varaformaður landssambands iðnaðarmanna, sagði í samtali við færeyska útvarpið að kæmu Íslendingar til Færeyja til að vinna þar á íslenskum launum þá myndi það grafa undan vinnumarkaðnum í Færeyjum. Iðnaðarmenn muni ekki sætta sig við það. Vitnað er í að bæði á Íslandi og í Danmörku sé bannað samkvæmt lögum að greiða lægri laun en umsamin laun í landinu.
Tilboðin í viðgerðina á ytra byrði Landssjúkrahússins voru opnuð 13. janúar. Alls bárust átta tilboð í verkið. ÞG Verk bauð lægst, 27,1 milljón færeyskra króna, Ístak bauð 30,6 milljónir og Al-Verk ehf. bauð 31,9 milljónir. Færeyskt fyrirtæki, Víking Smíð, var það fjórða í röðinni og bauð 33,3 milljónir. Hæsta tilboð hljóðaði upp á 48,8 milljónir.