Eftir Magnús Halldórsson
Útlit er fyrir að ekki takist að endurfjármagna nýju ríkisbankana þrjá, Nýja Glitni, Nýja Kaupþing og NBI, sem stofnaður var úr gamla Landsbankanum, á þeim tíma sem að er stefnt samkvæmt áætlun sem íslensk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) vinna eftir. Áætlunin gerir ráð fyrir að mati á eignum og skuldum gömlu og nýju bankanna, og hvernig þær skiptast á milli bankanna, verði lokið í lok febrúar.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er fyrirséð að þetta markmið mun ekki nást fyrr en seint í apríl eða um tveimur mánuðum síðar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Vinna við matið er mun tímafrekari og umfangsmeiri en gert var ráð fyrir. Mikil áhersla er þó lögð á að flýta vinnu við mat á eignum og skuldum sem allra mest svo mögulegt sé að veita heimilum og fyrirtækjum sem allra besta þjónustu á erfiðum tímum og bankarnir geti staðið á eigin fótum.
Alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Oliver Wyman, sem mótaði verklagið sem stuðst hefur verið við við mat á eignum og skuldum, mun að lokum yfirfara niðurstöður matsins áður en bönkunum verður lagt til eigið fé. Samkvæmt áætlunum á eiginfjárhlutfall bankanna að vera að minnsta kosti 10 prósent eftir að þeir hafa verið endurfjármagnaðir. Áætlanir gera ráð fyrir að ríkið þurfi að leggja bönkunum til 385 milljarða króna.