Verkalýðsfélag Akraness og Akraneskaupstaður hafa óskað eftir opnum bæjarmálafundi um hvalveiðar með þingmönnum norðvesturkjördæmis. Þar verður til umræðu ákvörðun sjávarútvegsráðherra um heimild til hvalveiða að nýju og yfirlýsingar viðtakandi ríkisstjórnar um að nema heimildina úr gildi.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness segist vart hafa trúað fréttum í gær um að væntanleg ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna hygðist hnekkja ákvörðun sjávarútvegsráðherra um heimild til veiða á langreyði og hrefnu til ársins 2013.
Vilhjálmur segir liggja fyrir að með þessari ákvörðun sé verið að skapa allt að 300 ný störf í landinu, en það sé um hundrað störfum fleira en hjá Járnblendifélaginu Elkem Ísland á Grundartanga.
„Með öðrum orðum má segja að hér sé um hálfgerða vistvæna stóriðju að ræða. Ekki aðeins mun störfum fjölga hér umtalsvert heldur mun þetta skapa þjóðarbúinu umtalsverðar útflutningstekjur sem ekki veitir af nú á þeim erfiðu tímum sem íslenskt samfélag er að ganga í gegnum. Það væri fróðlegt að vita hjá komandi ríkisstjórn afturkalli hún þessa ákvörðun sjávarútvegsráðherra, hvaða nýju störf geta þau boðið okkur landsmönnum í staðinn,“ segir Vilhjálmur.
Samtök hvalskoðunarmanna hafa lýst yfir áhyggjum vegna hvalveiðanna og telja að þær muni draga úr ferðaþjónustu. Vilhjálmur gefur lítið fyrir þau rök og segir allar rannsóknir sýna að ferðamönnum, tengdum hvalveiðiskoðunum, hafi fjölgað jafnt og þétt þó svo að stundaðar hafi verið hér hrefnuveiðar um alllanga hríð.
Vilhjálmur segist hafa haft samband við forseta Alþingis og óskað eftir því við hann að haldinn verði opinn fundur með öllum þingmönnum kjördæmisins fljótlega í næstu viku. Hann segir stjórn Verkalýðsfélags Akraness vilja sjá hver afstaða þingmanna kjördæmisins sé til ákvörðunar sjávarútvegsráðherra.