Fréttaskýring: Stjórnin semur um kjör forstjóranna

Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra. …
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra. Þeir eru báðir að hætta störfum. mbl.is/Golli

Þeir forstöðumenn ríkisstofnana sem eru ráðnir af stjórnum stofnananna gera ráðningarsamning sem uppsegjanlegur er á báða bóga. Jónas Fr. Jónsson, fráfarandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), gerði slíkan samning við stjórn FME.

Jón Sigurðsson, fráfarandi formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, segir samninginn við Jónas samhljóða ráðningarsamningi sem gerður var í upphafi við hann í júlí árið 2005 þegar hann réðst þangað og þannig sé ekkert í núverandi samningi sem ekki var áður ákveðið. „Ákvæði var í þeim þannig að hann ætti rétt á launum í sex mánuði ef hann segði upp sjálfur en tólf mánuði ef þetta væri að frumkvæði stjórnarinnar eins og raunin var í þetta sinn.“ Laun Jónasar Fr. eru 1.445.000 kr. á mánuði þar sem þau voru lækkuð um 15% frá 1. janúar með sérstakri ákvörðun stjórnarinnar sem tekin var 9. janúar í framhaldi af breytingum sem gerðar voru hjá æðstu embættismönnum. Jón segir rétt Jónasar til biðlauna falla niður fái hann starf sem er betur launað en biðlaunin.

Gunnar Björnsson á starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir Jónas einn af fáum forstjórum ríkisstofnana sem eru „ráðnir“. „Þannig að það er stjórn stofnunarinnar sem ákveður starfskjörin, þar á meðal uppsagnarfrest,“ segir Gunnar. Aðrar stofnanir sem nefna má og sama gildir um eru Samkeppniseftirlitið og Íbúðalánasjóður. „Það er sérstaklega tekið fram í lögum um viðkomandi stofnun hvort hún er undanþegin skipunarvaldi ráðherra,“ segir Gunnar.

Munurinn á samningi þeim sem gerður er við forstöðumann ríkisstofnunar sem er „ráðinn“ og þann sem er „skipaður“ felst í því að samningur þess sem er ráðinn er uppsegjanlegur á báða bóga en ekki þess sem er skipaður.

Með yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins fer þriggja manna stjórn sem viðskiptaráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Seðlabanki skipar auk þess einn mann í stjórn. Ráðherra skipar formann stjórnar og ákveður þóknun stjórnarmanna. Forstjóri ræður starfsmenn til stofnunarinnar.

Með yfirstjórn Samkeppniseftirlitsins fer þriggja manna stjórn sem viðskiptaráðherra skipar til fjögurra ára í senn og ráðherra skipar jafnframt formann stjórnar og ákveður þóknun til stjórnarmanna. Stjórn Samkeppniseftirlitsins ræður forstjóra stofnunarinnar og ákveður starfskjör hans.

Félagsmálaráðherra skipar stjórn Íbúðalánasjóðs til fjögurra ára í senn og stjórnina skipa fimm menn. Félagsmálaráðherra skipar formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna, en stjórn sjóðsins skiptir að öðru leyti með sér verkum. Ráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna. Stjórn Íbúðalánasjóðs ræður framkvæmdastjóra til fimm ára í senn og framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk. Hann annast daglegan rekstur skrifstofu sjóðsins, fjárreiður og reikningsskil. Framkvæmdastjóri framfylgir ákvörðunum stjórnar Íbúðalánasjóðs.

Kjararáð ákveður laun forstöðumanna ríkisstofnana samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisstofnana. Biðlaun koma í þeim tilfellum ekki til nema starf sé lagt niður. Kjararáð kemur aftur á móti ekki að ákvörðunum um launakjör starfsmanna sem ráðnir eru að ríkisstofnunum með samningum við stjórn viðkomandi stofnana.

Réttur til biðlauna

„Sé starf lagt niður á starfsmaður, sem skipaður hefur verið eða ráðinn í þjónustu ríkisins [...] rétt til bóta er nemi launum í sex mánuði ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár, en ella í tólf mánuði,“ segir í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Þar segir jafnframt að ákvæðið hafi verið túlkað svo „að þau áunnu biðlaunaréttindi [...] haldast ef um samfellda ráðningu í þjónustu ríkisins er að ræða, enda þótt viðkomandi skipti um starf og ráði sig til starfa hjá annarri ríkisstofnun“. Loks segir í útskýringu á lögum um biðlaunarétt, sem finna má á vef fjármálaráðuneytisins, að taki starfsmaður við öðru starfi í þjónustu ríkisins eða annars aðila áður en sex eða tólf mánaða tíminn er liðinn falli launagreiðslur niður ef launin í nýja starfinu eru jöfn eða hærri en þau sem hann hafði áður. „Ef launin eru lægri skal hann fá launamismuninn greiddan þar til sex eða tólf mánaða tímabilinu er náð.“
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert